3. KAFLI.
Stofnsjóður félagsins.
10. gr.
tofnsjóður félagsins skiptist í tvo hluta. A-deild sem er mynduð af séreignarhlutum félagsaðila og B-deild sem er mynduð með sölu á hlutum í þeirri deild sjóðsins. Fjármuni í stofnsjóði skal nota við rekstur félagsins.
Aðalfundur félagsins ráðstafar hagnaði til deilda í stofnsjóði félagsins í samræmi við ákvæði samþykktanna.
11. gr.
Sjóðseign hvers félagsmanns í A-deild skal færð á sérstakan reikning, stofnreikning. Stofnsjóðstillag skal fært í reikning mánaðarlega. Aðalfundur félagsins ákveður hverju sinni hversu mikið af hagnaði félagsins skuli renna í A-deild stofnsjóðs félagsins að uppfylltu ákvæði 1. mgr. 14. gr. samþykktanna. Við ráðstöfun á hagnaði félagsins í A-deild skal leitast við að séreignarhlutir verði verðbættir í samræmi við breytingu á lánskjaravísitölu milli ára og að auki reiknaðir á þá almennir innlánsvextir.
Í stofnsjóð leggist árlega ákveðinn hundraðshluti af viðskiptaupphæð hvers félagsmanns eftir nánari ákvörðun félagsstjórnarinnar þó þannig að framlag einstaks félagsmanns skal aldrei vera hærra en sem nemur 1% af árlegu framlagi allra félagsmanna.
Aðalfundi er heimilt að greiða í arð til félagsmanna í A-deild sem nemur allt að 20% af hagnaði félagsins.
12. gr.
Stofnsjóðsinneign félagsmanns í A-deild fellur til útborgunar:
a) Við andlát hans.
b) Við brottflutning af félagssvæðinu.
c) Hætti hann búskap.
d) Við gjaldþrot hans.
- e) Að ósk aðila er hann nær 70 ára aldri.
f) Slit lögaðila sem er félagsaðili.
Breyting á rekstrarformi veitir ekki rétt til útgreiðslu stofnsjóðseignar í A-deild, enda sé félagið að hluta eða öllu leyti í eigu sama aðila.
Félagsstjórninni er heimilt að fella stofnsjóðsinneign félagsmanna í varasjóð 5 árum eftir að inneign fellur til útborgunar ef hennar hefur ekki verið vitjað.
Aldrei má þó borga út stofnsjóðseign, fyrr en eigandi hennar hefur innt af hendi allar fjárhagslegar skuldbindingar, er á honum hvíla sem félagsmanni.
Að öðru leyti er stofnfé óuppsegjanlegt og verður ekki selt né af hendi látið á annan hátt nema með samþykki félagsstjórnarinnar.
Félagsmenn eiga ekki rétt á frekari greiðslum úr sjóðum félagsins við þau skilyrði er greinir í 1. mgr. eða í öðrum tilvikum en nemur eigu þeirra í A-deild stofnsjóðs nema við félagsslit og fer þá um útgreiðslu til þeirra eftir 37. gr.
13. gr.
Upphæð B. deildar skal vera að lágmarki kr. 50.000.000,oo – krónur fimmtíu milljónir 00/100 – en að hámarki kr. 200.000.000,oo – krónur tvöhundruð milljónir 00/100 -. Hver hlutur skal vera að nafnverði kr. 1,oo eða margfeldi þar af.
Fjármuna til B-deildar skal aflað með sölu á samvinnuhlutabréfum skv. nánari ákvörðun félagsfundar.
Í ákvörðun félagsfundar um sölu á samvinnuhlutabréfum skal tilgreina frest til áskriftar og skal hann ekki vera lengri en sex mánuðir, nema ákvæði 3. tl. 1. mgr. 49. gr. laga um samvinnufélög eigi við. Greiða skal hluti innan 6 mánaða frá því að
áskriftarfrestur rennur út. Aðalfundi er heimilt að ákveða skemmri frest.
Félagsstjórn er heimilt að gefa út hlutabréf í B-deild stofnsjóðs með rafrænum hætti í verðbréfamiðstöð í samræmi við lög nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu verðbréfa. Rafræn hlutabréf koma í stað útgefinna hlutabréfa sem þá skulu ógilt. Útskrift frá verðbréfamiðstöð um eignarhald á hlutum í félaginu telst fullnægjandi hlutaskrá.
14. gr.
Við ráðstöfun hagnaðar á aðalfundi félagsins skal fyrst leggja fé til þess að jafna tap í félaginu, í lögbundna sjóði og til að fullnægja ákvörðunum skv. 2. mgr. þessarar greinar. Því næst skal hagnaði ráðstafað til að greiða út arð til eigenda hluta í B-deild stofnsjóðs er svari til verðbóta í samræmi við breytingar á lánskjaravísitölu milli ára nema þeim breytingum sé mætt með útgáfu jöfnunarhluta.
Eigendur 10% hluta í B-deild stofnsjóðs geta krafist þess á aðalfundi að úthlutað verði sem arði, til eigenda B-deildar, allt að helmingi af árshagnaði félagsins eftir að tap hefur verið jafnað og greiðslur inntar af hendi í varasjóð skv. félagssamþykktum og lögum. Greiðslur skv. þessu mega þó ekki nema hærri fjárhæð en nemur 10% af nafnverði hluta í B-deild auk arðs vegna verðbóta skv. lokamálsliðs 1. mgr. 14. gr. Eigendur sama hlutfalls í B-deild sjóðsins geta krafist útgáfu jöfnunarbréfa að uppfylltum skilyrðum 51. gr. laga 22/1991 um samvinnufélög.
Stjórn félagsins gerir tillögu um það á aðalfundi hversu mikið af hagnaði félagsins til viðbótar því sem greinir í 1. mgr. eigi að leggja til B-deildar stofnsjóðs, í þeim tilgangi að greiða út arð til eigenda hluta í B-deild.
Arðgreiðslur skulu að hámarki vera 15% ofan á höfuðstól hluta í B-deild sjóðsins auk arðgreiðslu vegna verðbóta skv. lokamálsliðs 1. mgr. 14. gr. Arðinn skal greiða til eigenda innan 6 mánaða frá því ákvörðun er tekin.
Stjórn félagsins er heimilt að ákveða úthlutun hluta tekjuafgangs sem viðbót á afurðaverð til félagsmanna enda standi nægar eftirstöðvar eftir að lokinni ráðstöfun tekjuafgangs og uppfyllt ákvæði samkvæmt samþykktum þessum og ákvörðunum aðalfundar um arðgreiðslur til félagsmanna í A-deild og eigenda hluta í B-deild.
15. gr.
Félagsmenn sem hafa haft viðskipti við félagið síðustu 5 ár fyrir ákvörðun um sölu hluta í B deild, og eigendur hluta skulu hafa forgangsrétt til þess að kaupa hluti í B deild stofnsjóðs félagsins í réttu hlutfalli við inneignir í stofnsjóði enda sé inneign þeirra a.m.k. kr. 20.000,- miðað við lánskjaravísitölu í janúar 1992. Ef einhverjir aðilar vilja ekki nýta sér forgangsréttinn skal öðrum forgangshöfum boðið að kaupa þá hluti í réttum hlutföllum.
Þegar félagsmönnum og eigendum hluta er boðin forgangsréttur að hlutum skv. 1. mgr. skulu þeir tilgreina sérstaklega ef þeir óska eftir því að nýta sér forgangsrétt að öðrum hlutum sem koma til með að standa þeim til boða, ef aðrir aðilar nýta sér ekki forgangsrétt, og þá að hvað mikilli fjárhæð.
Frestur til að nýta forgangsrétt skal vera 2. vikur frá dagsetningu tilkynningar félagsins.