5. KAFLI.
Félagsfundir.
19. gr.
Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald í öllum félagsmálum með þeim takmörkunum, sem samþykktir þessar setja. Atkvæðisrétt á félagsfundum hafa einungis fulltrúar sem félagsdeildir tilnefna sbr. 1. mgr. 16. gr. Félagsfundur er lögmætur, ef fulltrúar frá meira en helmingi félagsdeilda sækja fundinn, enda sé á fundinum meira en helmingur þeirra fulltrúa, sem þar eiga atkvæðisrétt. Á félagsfundum ræður afl atkvæða úrslitum, nema samþykktir þessar eða lög mæli öðruvísi fyrir.
Hafi eigi verið á fundi svo margir fulltrúar, að hann væri lögmætur, þá skal boða fund aftur innan þriggja vikna. Skal til hans boðað á venjulegan hátt og það tekið fram í fundarboðinu, að til fundarins sé boðað vegna þess, að eigi hafi verði mættir nógu margir fulltrúar á hinum fyrra fundi til þess, að hann væri lögmætur og er hinn síðari fundur þá lögmætur án tillits til þess, hve margir fulltrúar mæta áhonum.
20. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn árlega fyrir lok júnímánaðar. Aukafundi skal halda þegar stjórn félagsins þykir þurfa. Auk þess skal stjórninni skylt að boða til aukafundar, ef fulltrúar deilda sem fara með a.m.k. 10% atkvæða eða þriðjungur félagsdeilda krefst þess skriflega og tilgreina fundarefni. Stjórnin skal boða til félagsfundar innan 14 daga frá því, er henni barst krafan, ella geta fulltrúar deilda gert það sjálfir. Endurskoðandi og skoðunarmenn félagsins geta og kvatt til aukafundar.
21. gr.
Stjórnin skal boða til félagsfunda með skriflegri tilkynningu til fulltrúa eða símskeyti með að minnsta kosti 14 daga fyrirvara. Dagskrár fundarins skal jafnan geta í fundarboði.
22. gr.
Auk hinna kjörnu fulltrúa skal stjórn félagsins, forstjóri mæta á félagsfundum og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Endurskoðandi og skoðunarmenn skulu mæta á aðalfund félagsins og aðra þá félagsfundi sem nauðsynlegt er að þeir sitji vegna starfa sinna. Á fundunum hafa þeir málfrelsi og tillögurétt. Félagsfundir skulu og vera opnir fyrir öðrum félagsmönnum og þeir hafa þar málfrelsi og tillögurétt.
Skoðunarmenn og stjórnarmenn skulu fá laun fyrir störf sín eftir nánari ákvörðun aðalfundar. Stjórn félagsins ákveður greiðslur til fulltrúa og deildarstjóra.
23. gr.
Félagsfundur kýs fundarstjóra. Hann rannsakar í byrjun fundar, hvort löglega hafi verði boðað til fundarins og hvort hann sé lögmætur að öðru leyti og lýsir því síðan, hvort svo sé. Atkvæðagreiðslu á fundinum skal haga eftir því, sem fundarstjóri nánar ákveður, en þó skal atkvæðagreiðsla jafnan vera skrifleg, ef einhver fulltrúi krefst þess. Fulltrúar hafa einir atkvæðisrétt á félagsfundi.
24. gr.
Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál í þeirri röð sem hér segir:
- 1. Stjórn félagsins skýrir frá hag þess og framkvæmdum á liðnu ári.
2. Endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir liðið ár með athugasemdum endurskoðanda og skoðunarmanna skulu lagðir fram og úrskurðaðir. Úrskurðinum má fresta vegna vantandi upplýsinga, þó aldrei lengur en til næsta aðalfundar.
3. Hvernig farið skuli með hagnað eða tap félagsins á reikningsárinu.
4. Kosið í stjórn félagsins, bæði aðalmenn og varamenn.
5. Kosinn einn löggiltur endurskoðandi, einn skoðunarmaður og annar til vara.
6. Ákveðin þóknun stjórnar og skoðunarmanna fyrir liðið ár.
7. Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur mál, er upp kunna að vera borin.
Að auki á hver félagsaðili rétt á að fá tekið mál á dagskrá ef hann gerir skriflega kröfu um það til félagsstjórnar með það miklum fyrirvara að unnt sé að taka málið á dagskrá í fundarboði.
25. gr.
Á aukafundi verður aðeins tekin ákvörðun um þau mál, sem nefnd eru í fundarboðinu.
26. gr.
Í sérstaka gerðabók skal rita allar fundasamþykktir orðréttar og stutta skýrslu um annað, sem gerist á félagsfundum. Fundargerðir skulu lesnar upp í fundarlok og bornar undir atkvæði. Þó er heimilt með samþykki fundarins að fela fundarstjóra og fundarritara að ganga frá og staðfesta fundargerðina. Verði framangreindum aðilum heimilað að ganga frá endanlegri fundargerð með skal hún send fulltrúum á fundinum innan mánaðar frá fundinum. Ef fundarmenn hafa athugasemdir við staðfesta fundargerð skulu þeir senda athugasemdir til stjórnar félagsins innan tveggja mánaða frá fundinum að öðrum kosti telst fundargerðin samþykkt.
Fundargerðir skulu undirskrifaðar af fundarstjóra og fundarritara. Þessi fundarskýrsla skal síðan teljast full sönnun um það, sem fram hefur farið á fundinum.