Sláturfélag Suðurlands var stofnað við Þjórsárbrú 28. janúar 1907 og á því 98 ára afmæli í dag. Eftir stofnun félagsins urðu miklar framfarir í vinnslu og sölu landbúnaðarafurða á Íslandi, sem hefur orðið bæði framleiðendum og neytendum til hagsbóta. Á fyrsta starfsári félagsins var reist sláturhús á aðalmarkaðssvæðinu, í Reykjavík, og síðar á helstu stöðum á Suðurlandi.
Árið 1920 hóf Sláturfélagið niðursuðu á kjöti og reisti síðan fullkomna niðursuðuverksmiðju árið 1929. Niðursuða var lengi mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins en var aflögð í kjölfar breyttra neysluvenja.
Árið 1908, strax á öðru rekstrarári félagsins, var hafinn rekstur fyrstu matvöruverslunarinnar, Matardeildarinnar í Hafnarstræti. Verslunum Sláturfélagsins fór síðan fjölgandi og á tímabili voru umsvif verslunardeildar félagsins veruleg. Í kjölfar breyttra áherslna hafa verslanir félagsins verið seldar.
Sláturfélagið hóf rekstur sútunarverksmiðju árið 1965 að Skúlagötu 20, Reykjavík, en síðar var verksmiðjan rekin á Grensásvegi 14. Rekstri sútunarverksmiðju var hætt á árinu 1988 og vélar og annar búnaður seldur.
Kjötvinnsla Sláturfélagsins var flutt á árinu 1991 til Hvolsvallar frá Reykjavík þar sem hún hafði verið frá upphafi. Stórgripa- og sauðfjársláturhús á Hvolsvelli var lagt niður og tekið undir kjötvinnsluna ásamt því að húsnæði hennar var stækkað til muna. Lokið var við 1.800 fermetra stækkun kjötvinnslunnar á Hvolsvelli á árinu 1998. Starfsstöð félagsins á Hvolsvelli er rúmir 8.000 fermetrar. Um er að ræða stærstu og fullkomnustu kjötvinnslu landsins og er stefnt að því að fá heimild fyrir útflutningi til landa ESB ríkja innan fárra ára.
Að Fosshálsi 1 í Reykjavík er vörudreifing, sala og skrifstofustarfsemi, en á árinu 1993 sameinaðist öll starfsemi félagsins á höfuðborgarsvæðinu á einum stað að Fosshálsi 1. Húsnæðið var síðan keypt á árinu 1997 og viðbót á árinu 1998, alls tæpir 3.700 fermetrar.
Rekstur félagsins byggir enn í dag á þeim sterka grunni sem sunnlenskir bændur lögðu upp með fyrir 98 árum við stofnun félagsins og metnaður SS er enn sem fyrr að framleiða úrvals vörur úr 1. flokks hráefni fyrir landsmenn.
Á þessum tímamótum er efst í huga okkar þakklæti til þeirra fjölmörgu sem gert hafa félaginu mögulegt að vaxa og dafna í gegnum tíðina.