Í fréttabréfinu kemur fram að sauðfjársláturtíð sé hafin og annasamar vikur séu framundan. Nýr gripaflutningavagn hefur verið tekinn í notkun ásamt nýjum flutningabíl fyrir kjöt frá Selfossi til viðskiptavina.
Fram kemur að afkoma samstæðunnar hafi verið góð á fyrri árshelmingi 2024 og viðbót á afurðaverð hafi verið hækkuð í 8% frá 1. apríl síðast liðnum.
Fjallað er um breytingu á búvörulögum og samþjöppun afurðastöðva á Norður- og Austurlandi.
Fram kemur að unnið er að þarfagreiningu og hönnun á nýrri afurðastöð á Selfossi en stefnan er að byggja hana í áföngum. Gert er ráð fyrir að byggja fyrst stórgripahúsið ásamt úrbeiningu.
SS hefur eins og oft áður fest til lengri tíma innkaupsverð á nautgripafóðri og getur því boðið óbreytt verð áfram. Þess má geta að verð á kúafóðri hefur verið óbreytt í rúmt ár. Sala á Yara áburði gekk vel. Verðskrá á Yara áburði fyrir næsta vor hefur ekki verið gefin út og því of snemmt að segja til um hvort verð breytist milli ára.
Í fréttabréfinu er einnig komið inn á stöðuna á kjötmarkaði, vöruþróun og nýjungar hjá SS. Í lokin er kynning á einum af fjölmörgum starfsmönnum félagsins.