SS Vörumerkið
Saga SS vörumerkisins er mjög áhugaverð og er órjúfanlegur hluti af sögu eins elsta fyrirtækis landsins.
Í upphafi var merkið mjög lýsandi, kind með ör í gegn og SS stafina en einnig heitið “Sláturfélag Suðurlands”.
Í næstu gerð vörumerkisins voru heiti fyrirtækisins og kindin tekin í burtu en SS og örinni haldið eftir. Árið 1970 urðu höfuðið og kokkahúfan fyrst til sem notuð hafa verið með nokkrum endurbótum síðan.
Slagorðið „Gæðafæða bragðast bezt” var notað um langt árabil en frá árinu 1986 var slagorðið „Fremstir fyrir bragðið” notað. Á 110 ára afmæli vörumerkisins var slagorðið uppfært í „Fremst fyrir bragðið“. “Fremst fyrir bragðið” er mjög vel heppnað tvírætt slagorð sem innifelur staðfærslu og markmiðssetningu. Að vera fremst fyrir bragðið er að vera leiðandi en vísar um leið til framúrskarandi bragðs sem er tenging við bragðgæði og gæði almennt. Það hefur alla tíð staðið fyrir gæði og traust og gerir það enn í dag bæði hjá þeim sem framleiða vörur undir þessu merki og hjá neytendum. Gæði og traust SS merkisins byggjast á reynslu og hefð sem hefur verið sköpuð og viðhaldið mann fram af manni og er með þjóðlega tilvísun vegna sögunnar. SS merkið stendur því öðru fremur fyrir gæði, traust og þjóðlega hefð og er staðfært með þeim gildum. Af þeim sökum er notuð tenging við íslensk fjöll í útliti og umbúðum SS vara. SS vörumerkið er eitt þekktasta innlenda vörumerkið á neytendamarkaði. Undir þessu vörumerki eru seldir margir leiðandi flokkar á markaði svo sem pylsur, álegg, grillkjöt, hangikjöt, hamborgarhryggur ofl. Hér fyrir neðan má líta SS merkið á mismunandi tímum.