2. KAFLI.
Inntökuskilyrði, réttindi og skyldur félagsmanna.
4. gr.
Inntöku í félagið getur hver sá fengið, sem býr á félagssvæðinu, framleiðir búfjárafurðir, byrjar viðskipti við félagið, leggur í stofnsjóð minnst 1000 krónur og greiðir 1000 krónur er renni í varasjóð. Félagsstjórnin getur jafnframt heimilað framleiðendum utan félagssvæðisins inntöku enda uppfylli þeir sömu skilyrði og aðrir félagsmenn. Hver félagsmaður er skyldur til, án nokkurra sérstakra skuldbindinga, af sinni hálfu að lúta samþykktum félagsins eins og þær eru á hverjum tíma.
Lögaðilum skal heimiluð aðild að félaginu ef þeir uppfylla að öðru leyti skilyrði samþykktanna. Fyrirsvarsmaður lögaðila, að jafnaði stjórnarformaður eða framkvæmdastjóri með prókúru, skal fara með réttindi og atkvæðisrétt lögaðila á deildarfundum/félagsfundum. Ef ágreiningur verður á milli eigenda lögaðila um hver fer með réttindi og atkvæðisrétt lögaðila á deildarfundum/félagsfundum, sem ávallt skal aðeins vera einn aðili, þá skal lögaðilinn vera án félagsréttinda á þeim fundi nema fulltrúi hans leggi fram lögmætt umboð um rétt sinn frá þeim sem heimild hafa til þess að skuldbinda lögaðilann. Fulltrúar lögaðila eru kjörgengir til ábyrgðarstarfa fyrir félagið eins og aðrir félagsmenn þess.
Félagsaðilar (félagsmenn) eru þeir einir sem uppfylla skilyrði 1. og 2. mgr. og njóta þeir einir fullra félagaréttinda í félaginu skv. samþykktum þessum og samvinnufélagalögum. Félagsmenn einir eiga aðild að A-deild stofnsjóðs félagsins.
Eigendur hluta í B-deild stofnsjóðs félagsins njóta ekki atkvæðisréttar í félaginu vegna eignar í þeim hluta stofnsjóðs. Þeir hafa rétt til setu á félagsfundum og fullt málfrelsi. Að öðru leyti fer um réttindi þeirra skv. samþykktum þessum og samvinnufélagalögum.
5. gr.
Fjárhæðir aðildargjalda skv. 1. mgr. 4. gr. skulu hækka 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á lánskjaravísitölu. Fjárhæðir gjaldanna eins og þær eru tilgreindar í greininni (kr. 1.000,- hvort gjald) eru miðaðar við grunnvísitölu janúar 1992, en skulu þó aldrei vera lægri en krónur 1.000,-. Aðildargjöld skulu greidd við inngöngu í félagið.
6. gr.
Félagsmenn skulu beina viðskiptum sínum til félagsins. Hver félagsmaður ber skyldur í samræmi við samþykktir þessar og ber honum að láta félagið hafa forgang að framleiðslu sinni. Ef frá því er brugðið á hann það á hættu að missa sinn forgang sem félagsmaður með þær afurðir sem offramboð er á hverju sinni.
Brjóti félagsmaður skyldur sínar við félagið eða vinni á annan hátt gegn hagsmunum þess og tilgangi, getur félagsfundur gert hann rækan úr félaginu. Stjórn félagsins er þó heimilt í tilefni af broti félagsmanns að synja félagsmanni um viðskipti við félagið þar til ákvörðun félagsfundar liggur fyrir.
7. gr.
Ábyrgð hvers einstaks félagsmanns á skuldbindingum félagsins er takmörkuð við innistæðu hvers og eins í stofnsjóði eins og hún er á hverjum tíma.
8. gr.
Úrsögn úr félaginu sendist félagsstjórn og einnig tilkynning um andlát félagsmanns eða brottflutning af félagssvæðinu.
Skilyrði fyrir því, að úrsögn sé gild gagnvart félaginu eru auk þess, er segir í 12. gr. um skyldu til útborgunar á stofnfé, að viðkomandi félagsmaður sé hættur að framleiða sláturfénað á félagssvæðinu, enda sé ekki útlit til þess, að hann byrji á því að nýju.
9. gr.
Utanfélagsmenn skulu greiða sama hundraðshluta af viðskiptaupphæð sinni í varasjóð og félagsmenn greiða í stofnsjóð. Framlag þetta er óendurkræft og eign félagsins.