4. KAFLI.
Deildaskipun og kosning fulltrúa.
16. gr.
Félagssvæðið skiptist í deildir. Hvert sveitarfélag er ein deild. Þó getur aðalfundur leyft aðra deildarskipun. Deildir félagsins skulu halda ársfundi sína 2 vikum fyrir aðalfund ár hvert og skal þá kosinn deildarstjóri til eins árs í senn og annar til vara. Deildarstjóri er sjálfkjörinn fulltrúi deildar sinnar á fundum félagsins, án tillits til fjölda félagsmanna í deildinni miðað við, að hann komi fyrir fyrstu 10 virka innleggendur, 2 fulltrúar fyrir deild, sem hefur 11-20 virka innleggjendur, 3 fulltrúar fyrir þær, sem hafa 21-30 og svo framvegis. Virkur innleggjandi er félagsmaður sem hefur lagt inn afurðir til félagsins að andvirði meira en 70 þkr. á liðnu ári. Viðmiðunarupphæð breytist með neysluvísitölu frá desember 2005. Félagsmenn sem verða fyrir niðurskurði búfjár vegna sjúkdóma, skulu teljast virkir innleggjendur áfram þó þeir nái ekki tilsettri viðmiðunarupphæð í innleggi fyrstu 4 árin eftir niðurskurð.
Á deildarfundum má bera upp og samþykkja tillögur til aðalfundar, og hafa allir félagsmenn í deildinni atkvæðisrétt, eitt atkvæði hver, án tillits til eigna eða viðskipta í félaginu. Á deildarfundum ræður afl atkvæða úrslitum. Deildarfundi stýrir deildarstjóri, sér um bókun fundargerðar og sendir skrifstofu félagsins afrit af henni svo fljótt sem verða má.
Deildarfundi skal boða samkvæmt sveitavenju um fundaboð í hverri deild og með nægum fyrirvara.
17. gr.
Deildarstjóri hefur á hendi stjórn og framkvæmd sláturfélagsmálefna í deild sinni, boðar til funda, gerir áætlun um tölu sauðfjár, er deildin muni selja til slátrunar haust hvert, og sendir hana til skrifstofu félagsins. Hann skal og á deildarfundi skýra sem best fyrir félagsmönnum rekstur félagsins og fjárhag og ályktanir aðalfundar og allar gerðir hans, er máli skipta og skal stjórn félagsins senda deildarstjóra afrit af öllu slíku.
18. gr.
Auk deildarstjóra getur félagsstjórn boðað til funda í einstökum deildum eða fleiri deildum sameiginlega, ef ástæða þykir til.