Fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna var haldinn í tengslum við sýninguna Matur 2006 í Kópavogi. Sömuleiðis var haldin keppni kjötiðnaðarnema.
Fyrirkomulag keppninnar er þannig að menn senda inn vöru með nafnleynd til dómarahóps, sem dæmir vörurnar eftir faglegum gæðum hennar. Hver keppandi má senda inn allt að 10 vörur til keppninnar. Allar vörur byrja með fullt hús stiga eða 50 stig. Dómarar leita síðan að öllum hugsanlegum göllum. Við hvern galla sem finnst, fækkar stigum. Með þessu fyrirkomulagi geta margar vörur haft gull, silfur eða bronsverðlaun. Til þess að fá gullverðlaun þarf varan að hafa 49 til 50 stig og vera nánast gallalaus. Vörur með 46 til 48 stig og aðeins lítilsháttar galla fá silfurverðlaun og vörur með 42-45 stig fá bronsverðlaun. Vörur með minna en 42 stig fá ekki verðlaun.
Kjötiðnaðarmenn Sláturfélags Suðurlands náðu glæsilegum árangri. Hrepptu þeir 5 gullverðlaun, 13 silfurverðlaun og 11 bronsverðlaun. Alls hlutu þeir því 29 verðlaun fyrir 38 innsendar vörur. Hlutfallslegur árangur er mjög góður, þ.e. 76% innsendra vara fengu verðlaun, 13% gull, 34% silfur og 29% brons.
Keppnin um kjötmeistara Íslands var ströng og jöfn. Svo fór að Viktor Steingrímsson, hafnaði í öðru sæti með 286 stig, aðeins einu stigi á eftir sigurvegaranum. Sigurður Árni Geirsson og Jón Þorsteinsson höfnuðu jafnir í 3.-4. sæti með 282 stig, fimm stigum á eftir sigurvegaranum.
Sigurður Árni Geirsson hlaut sérstök verðlaun Landssambands kúabænda fyrir “Tuddi ruddi” nautakæfu, sem taldist besta áleggið úr nautakjöti. Jón Þorsteinsson, hlaut sérstök verðlaun Kjötframleiðenda hf. fyrir “Eldhúspylsu”, bestu vöruna unna úr hrossa- eða folaldakjöti. Jafnframt hlaut Jón sérstök verðlaun fyrir bestu kæfu eða paté sýningarinnar, “Bakaða lifrarkæfu með sólberjahlaupi”.
Í keppni kjötiðnaðarnema varði Ólafur Bjarni Loftsson titil sinn “KJÖTIÐNAÐARNEMI ÁRSINS” með miklum glæsibrag. Einnig hlaut Gísli Kristján Ólafsson verðlaun fyrir athyglisverðustu nýjung nemakeppninnar.
Önnur úrslit urðu sem hér segir:
Viktor Steingrímsson, 2 gull, 3 silfur, 3 brons.
Jón Þorsteinsson, 2 gull, 3 silfur, 1 brons.
Sigurður Árni Geirsson, 1 gull, 4 silfur, 2 brons.
Jens Sigurðsson, 2 silfur, 1 brons.
Benedikt Benediktsson, 2 brons.
Björgvin Bjarnason, 1 silfur.
Oddur Árnason, 1 brons.
Ólafur Svavarsson, 1 brons.
Á meðfylgjandi mynd gefur að líta stolta og hamingjusama kjötiðnaðarmenn með verðlaunagripi sína. Við færum þeim okkar bestu hamingjuóskir og þakklæti fyrir metnað og fagmennsku.