Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands svf. verður haldinn föstudaginn 27. mars 2009 á Laugalandi, Holtum og hefst kl. 15:00.
Dagskrá:
1. Setning aðalfundar, kosning starfsmanna fundarins og könnun á mætingu fulltrúa.
2. Skýrsla stjórnar félagsins.
3. Starfsemi félagsins á liðnu ári.
4. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár skýrður.
5. Skýrsla skoðunarmanna.
6. Tillaga stjórnar um vexti af stofnsjóði og greiðslu arðs.
7. Umræður um skýrslu stjórnar, skýrslu um starfsemi félagsins, ársreikning og tillögu stjórnar um vexti og arð af stofnsjóði.
8. Afgreiðsla ársreiknings og tillögu stjórnar um vexti og arð af stofnsjóði.
9. Kosin stjórn félagsins.
10. Kosning endurskoðenda og skoðunarmanna.
11. Ákvörðun um þóknun stjórnar, skoðunarmanna og greiðslur til fulltrúa.
12. Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál, löglega upp borin.
(a) Tillaga stjórnar um breytingar á 17. gr. samþykkta félagsins.
Tillögur frá félagsaðilum sem bera á fram á aðalfundi þurfa að vera komnar skriflega í hendur stjórnarinnar eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund.
Tillögur:
Liður 6 í dagskrá: Tillaga stjórnar um vexti af stofnsjóði og greiðslu arðs.
Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf. leggur til við aðalfund að hvorki verði greiddur arður af B-deild stofnsjóðs né reiknaðir vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs.
Liður 12.(a) í dagskrá: Tillaga stjórnar um breytingar á 17. gr. samþykkta félagsins.
17. gr. verði svohljóðandi:
Deildarstjóri er fulltrúi félagsins gagnvart félagsmönnum. Skýrir stefnu þess og vinnur að hag félagsins og þar með hag félagsmanna sem eiga félagið. Deildarstjóri skal ekki sinna neinum öðrum störfum sem skarast á við hagsmuni félagsins. Ef hann velur að taka slík störf að sér er hann sjálfkrafa vanhæfur sem deildarstjóri og ber að segja af sér deildarstjórastarfinu. Ef hann gerir það ekki er stjórn félagsins heimilt að tilkynna honum skriflega að hann sé vanhæfur og skipa varadeildarstjóra í starf deildarstjóra. Ef varadeildarstjóri getur ekki tekið við starfinu skal stjórn félagsins boða deildarfund þar sem kosinn skal nýr deildarstjóri.
Deildarstjóri er aðalfundarfulltrúi og þar með fulltrúi félagsmanna gagnvart félaginu og vinnur að því að stefna félagsins sé í samræmi við heildarhag félagsmanna. Aflar innleggs fyrir félagið með góðum samskiptum við félagsmenn. Kynnir fyrir þeim boð félagsins og leitar eftir viðskiptum jafnt hjá þeim sem skipta reglulega við félagið og þeim sem gera það ekki. Vinnur með afurðarstöðinni að skipulagningu flutninga og slátrunar þannig að hámarks árangur náist. Kemur á framfæri ábendingum um það sem betur má fara í rekstri félagsins.
17. gr. er nú svohljóðandi:
Deildarstjóri hefur á hendi stjórn og framkvæmd sláturmálefna í deild sinni, boðar til funda, gerir áætlun um tölu sauðfjár, er deildin muni selja til slátrunar haust hvert, og sendir hana til skrifstofu félagsins. Hann skal og á deildarfundi skýra sem best fyrir félagsmönnum rekstur félagsins og fjárhag og ályktanir aðalfundar og allar gerðir hans, er máli skipta og skal stjórn félagsins senda deildarstjóra afrit af öllu slíku.
Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf.