Árlega myndast langir biðlistar í hrossaslátrun á haustin og fram á vetur. Félagið tók á sínum tíma þá ákvörðun að lækka verð og slátra umfram þarfir til að þjónusta bændur. Nú hefur þetta tekist. Biðlistar eru í lágmarki og útlit fyrir að svo verði fram á haustið. Til þess að hvetja til hrossaslátrunar nú og minnka líkur á langri bið eftir slátrun á komandi hausti hefur félagið ákveðið að hækka verð til bænda tímabundið um 75%.
Bændur eru hvattir til að nýta þetta tækifæri.
Eftir sem áður eru markaðsaðstæður tvísýnar. Jákvæðar fréttir berast frá Japan og tekur félagið þátt í því verkefni eftir aðstæðum, en sterkt gengi krónunnar hefur áfram í för með sér umtalsvert lægra verð fyrir útflutt kjöt en áður og lykilmarkaðir í Rússlandi og tengdum löndum eru enn lokaðir.
Breytingin gildir frá og með þessari viku, þ.e. frá 10. apríl 2017.