Nú í vor voru lagðir út 28 tilraunareitir á Hvolsvelli á vegum Búvörudeildar SS. Markmið tilraunarinnar er að skoða áhrif mismunandi áburðaskammta á korn og grænfóður. Einnig var sáð mismunandi grastegundum sem fengu sama áburðarskammt. Allur áburður sem var notaður er frá Yara. Stefnt er að því að þreskja kornið í næsta þurrki.
Þar sem sýrustig í jarðveginum var mjög gott, pH 6,7 var ekki kalkað. Mjög mikilvægt er að athuga sýrustigið í jarðveginum áður en sáð er, til að hafa aðstæður sem bestar fyrir sáðgróðurinn.
Í korninu var sáð Kríu og Aukusti alls 12 reitir. Fengu allir reitirnir 70 kg/ha af köfnunarefni en mismunandi magn af fosfór og kalí.
Sáð var tveimur tegundum af grænfóðri í 12 reiti, vetrarrýgresi Sikem og vetrarrepja Emerald. Þessir reitir fengu mismunandi áburðarskammta af N, P og K.
Sáð var í 3 reiti með mismunandi grastegundum; vallarfox Engmo, hávingull Norild, SS Alhliða grasfræblanda sem inniheldur; vallarfoxgras 60%, fjölært rýgresi 15%, hávingul 15% og vallarsveifgras 10%. Þessir reitir fengu allir sama áburðarskammt, 600 kg/ha af NPK 15-7-12.
Einnig var sáð í 1 reit fjölæru rýgresi Calibra. Áburðarskammturinn sem hann fékk var 714 kg/ha af NPK 20-4-11.
Reitirnir eru vel merktir og er gestum og gangandi velkomið að ganga um reitina og virða þá fyrir sér.