Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf. hefur samþykkt í framhaldi af ábendingum að leggja til við aðalfund félagsins sem haldinn verður 27. mars 2009 breytingu á áður kynntri tillögu stjórnar á 17. gr. samþykkta félagsins. Tillagan sem lögð verður fyrir aðalfundinn er svohljóðandi:
 
Liður 12.(a) í dagskrá: Tillaga stjórnar um breytingar á 17. gr. samþykkta félagsins.
 
17. gr. verði svohljóðandi:
Deildarstjóri er fulltrúi félagsins gagnvart félagsmönnum í sinni deild og skýrir stefnu félagsins og vinnur að hag þess í nánu samstarfi við félagsstjórn og forstjóra félagsins.
Með sama hætti er deildarstjóri sjálfkjörin fulltrúi deildarinnar á félagsfundum félagsins og þar með fulltrúi félagsmanna deildar gagnvart félaginu. Deildarstjóri skal vinna að því að stefna félagsins sé í samræmi við heildarhag félagsmanna.
Deildarstjóri aflar innleggs fyrir félagið með góðum samskiptum við deildarfélaga og aðra þá sem skipta reglulega við félagið. Hann kynnir deildarfélögum þjónustuframboð félagsins, vinnur með afurðastöðvum félagsins að skipulagningu flutninga og slátrunar, þannig að hámarks árangur náist, og kemur á framfæri ábendingum um það sem betur mætti fara í rekstri félagsins.
Forstjóra eða staðgengli hans skal ávallt boðið að sitja deildarfundi með málfrelsi, sem boðað skal til með dagskrá og þeim tillögum sem ræða á, svo ekki fari á milli mála hvaða mál á að taka fyrir.
Deildarstjóri og aðrir stjórnarmenn deildar skulu í störfum sínum gæta hagsmuna félagsins í hvívetna. Ef félagsstjórn telur að deildarstjóri, eða aðrir í stjórn deildar, sinni störfum sem eru ósamrýmanleg augljósum hagsmunum félagsins eða láti vera að sinna þeim, þá getur félagsstjórn boðað til deildarfundar þar sem sett er fram rökstutt álit hennar um hverjir meintir hagsmunaárekstrar eru, ásamt tillögu um að bundinn skuli endi á kjörtímabil stjórnar deildarinnar og ný stjórn kjörin. Ef tillagan er samþykkt, þá skal fara fram stjórnarkjör og ný stjórn deildarinnar kjörin fram að næsta aðalfundi hennar. Ef fulltrúar á deildarfundi fallast ekki á sjónarmið félagsstjórnar getur félagsstjórn beitt ákvæðum 2. mgr. 6. gr. samþykkta félagsins um hvern þann félagsmann í viðkomandi deild sem talinn er brjóta vísvitandi gegn hagsmunum félagsins.
 
17. gr. er nú svohljóðandi:
Deildarstjóri hefur á hendi stjórn og framkvæmd sláturmálefna í deild sinni, boðar til funda, gerir áætlun um tölu sauðfjár, er deildin muni selja til slátrunar haust hvert, og sendir hana til skrifstofu félagsins. Hann skal og á deildarfundi skýra sem best fyrir félagsmönnum rekstur félagsins og fjárhag og ályktanir aðalfundar og allar gerðir hans, er máli skipta og skal stjórn félagsins senda deildarstjóra afrit af öllu slíku.
 
 
Reykjavík, 18. mars 2009
Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf.