Fréttatilkynningin í heild ásamt 5 ára yfirliti í pdf skjali
Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2005
• Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 986,5 milljónir króna.
• Rekstrarbati milli ára 75,2 milljónir.
• 19,2 milljón króna tap á ársfjórðungnum en var 94,4 milljónir á sama ársfjórðungi árið áður.
Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. sem Sláturfélagið á 51% hlut í.
Tap samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til mars 2005 var 19,2 mkr. Á sama tímabili árið áður var 94,4 mkr. tap. Eigið fé Sláturfélagsins er rúmar 1.200 mkr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 34%.
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 987 mkr. á fyrstu þremur mánuðum ársins 2005, en 993 mkr. á sama tíma árið áður og lækka því um tæplega 1%.
Launakostnaður, annar rekstrarkostnaður og afskriftir lækka um 5%. Rekstrartap án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 28 milljónir, en 62 milljónir króna árið áður.
Fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld voru 5 mkr., en fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur voru 33 mkr. árið áður. Gengishagnaður nam 24 mkr. samanborið við 17 mkr. gengistap á sama tímabili í fyrra. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 4 mkr. en árið áður um 2 mkr. Að teknu tilliti til 8 mkr. hlutdeildar minnihluta í afkomu var tap af rekstri tímabilsins 19,2 mkr. en 94,4 mkr. tap á sama tíma árið áður.
Veltufé frá rekstri var 9 mkr. á fyrstu þremur mánuðum ársins 2005, samanborið við 36 mkr. til rekstrar fyrir sama tímabil árið 2004.
Heildareignir Sláturfélagsins 31. mars voru 3.524 mkr. og eiginfjárhlutfall 34%. Veltufjárhlutfall var 1,8 í lok mars 2005, en 1,3 árið áður.
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í apríl s.l. var í maímánuði greiddur 13,91% arður af B-deild stofnsjóðs alls 28 mkr. og reiknaðir 6% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 12 mkr.
Áhrif innleiðingar alþjóðlegra reikningsskilastaðla
Á stjórnarfundi Sláturfélags Suðurlands í dag 13. maí 2005 samþykkti stjórn félagsins árshlutareikning þess fyrir fyrsta ársfjórðung 2005. Árshlutareikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins. Árshlutareikningurinn er nú gerður samkvæmt nýjum alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) sem fylgja ber samkvæmt reglum Kauphallar Íslands. Áhrif upptöku alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna á eigið fé samstæðunnar eru þau að bókfært eigið fé í ársbyrjun 2005 lækkar um 39,6 mkr. Í árshlutareikningnum er gerð grein fyrir þeim breytingum.
Staða og horfur
Sláturfélagið er með sterka stöðu í slátrun og rekur nú eina hagkvæma rekstrareiningu á Selfossi eftir að hafa lokað öðrum sláturhúsum.
Á Hvolsvelli er vel tækjum búin kjötvinnsla þar sem framleiddar eru vörur sem margar hverjar eru með afar sterka stöðu á neytendamarkaði.
Á öðrum ársfjórðungi 2005 seldi félagið eignarhlut sinn í Ferskum kjötvörum hf. og fasteign félagsins að Laxá í Leirársveit. Hagnaður vegna þessa er rúmar 100 mkr. og færist til tekna á næsta ársfjórðungi.
Aðstæður á kjötmarkaði hafa verið að færast í átt að auknu jafnvægi sem á að leiða til betri afkomu í rekstri félagsins.
Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000
Reykjavík, 13. maí 2005
Sláturfélag Suðurlands svf.