• Tekjur á fyrri árshelmingi 2.258,8 mkr.
• Afkoma versnar milli ára vegna minni söluhagnaðar eigna og hækkun fjármagnsgjalda.
• Hagnaður af sölu eigna 4,1 mkr. en 140,5 mkr. í fyrra.
• 24,8 mkr. tap á fyrri árshelmingi, en 182,0 mkr. hagnaður á fyrri árshelmingi árið áður.
• Veltufé frá rekstri var 205,9 mkr. en var 143,4 mkr. árið áður og jókst því um 62,5 mkr.
Fréttatilkynningin á pdf. formi með 5 ára yfirliti
Árshlutareikningur SS jan – jún 2006 á pdf. formi
Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. sem Sláturfélagið á 51% hlut í.
Tap samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2006 var 24,8 mkr. Á sama tímabili árið áður var 182,0 mkr. hagnaður. Lakari afkoma skýrist af 136 mkr. minni hagnaði af sölu eigna og 107 mkr. hækkun fjármagnsgjalda milli ára vegna gengisbreytingar krónu, hærri vaxta og verðbólgu. Eigið fé Sláturfélagsins er rúmar 1.493 mkr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 46%.
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 2.259 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2006, en 2.218 mkr. á sama tíma árið áður og hækka því um tæp 2%.
Vörunotkun var 1.127 mkr. og lækkaði um 4% úr 1.175 mkr. Launakostnaður hækkaði um 11%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um 7% og afskriftir hækkuðu um 5%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 78 mkr., en 77 mkr. árið áður.
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 142 mkr., en voru 35 mkr. árið áður. Gengistap nam 96 mkr. samanborið við 3 mkr. á sama tímabili í fyrra. Hagnaður af sölu hlutabréfa var 5 mkr. en 127 mkr. á sama tíma árið áður. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 12 mkr. en árið áður 3 mkr. Að teknu tilliti til 22 mkr. hlutdeildar minnihluta í afkomu var tap af rekstri tímabilsins 24,8 mkr. en 182,0 mkr. hagnaður var á sama tíma árið áður.
Veltufé frá rekstri var 206 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2006, samanborið við 143 mkr. fyrir sama tímabil árið 2005.
Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní voru 3.243 mkr. og eiginfjárhlutfall 46%. Veltufjárhlutfall var 1,6 í lok júní 2006, en 2,0 árið áður.
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars s.l. var í aprílmánuði greiddur 14,5% arður af B-deild stofnsjóðs alls 26 mkr. og reiknaðir 14,5% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 30 mkr.
Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti í samræmi við heimildir í reglum félaga á Tilboðsmarkaði Kauphallar Íslands. Ráðgert er að birta afkomu ársins 2006 þann 23. febrúar 2007.
Staða og horfur
Aðstæður á kjötmarkaði hafa einkennst af skorti á nær öllum kjöttegundum. Vöntun á kjöti hefur takmarkað sölumöguleika félagsins og sett mark á afkomuna. Lykil vöruflokkar hafa forgang og er staða félagsins í þeim mjög sterk. Á næstu mánuðum er reiknað með að framboð aukist og velta félagsins vaxi.
Ekki er gert ráð fyrir söluhagnaði af eignum með sama hætti og í fyrra sem hefur neikvæð áhrif á afkomu samstæðunnar milli ára.
Háir vextir á innlendri fjármögnun og veiking íslensku krónunnar hefur neikvæð áhrif á afkomu félagsins þar sem það hefur óverulegar tekjur í erlendri mynt.
Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000
Reykjavík, 18. ágúst 2006
Sláturfélag Suðurlands svf.