• Tekjur á fyrri árshelmingi 3.248,2 mkr. og aukast um 28% milli ára.
• EBITDA afkoma batnaði um 77 mkr. og var 288 mkr.
• Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur 632 mkr. þar af nam gengistap 497 mkr.
• 471,7 mkr. tap á fyrri árshelmingi, en 121,6 mkr. hagnaður árið áður.
• Afkoma versnar milli ára vegna hækkunar fjármagnsgjalda.

Fréttatilkynningin á pdf. formi mað 5 ára yfirliti

Árshlutareikningur SS jan – jún 2008 á pdf. formi

Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. sem Sláturfélagið á að öllu leyti.

Tap samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2008 var 471,7 mkr. Á sama tímabili árið áður var 121,6 mkr. hagnaður. Eigið fé Sláturfélagsins er tæpar 1.106 mkr. í lok júní.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 3.248 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2008, en 2.545 mkr. á sama tíma árið áður og hækka því um tæp 28%. Aðrar tekjur voru 22 mkr en 21 mkr. árið áður.

Vöru- og umbúðanotkun var 1.760 mkr. en 1.206 mkr. árið áður. Launakostnaður hækkaði um tæp 7%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um rúm 6% og afskriftir hækkuðu um rúm 4%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 165 mkr., en 94 mkr. árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 288 mkr. en var 211 mkr. á sama tíma í fyrra.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 632 mkr., en fjármunatekjur voru 9 mkr. umfram fjármagnsgjöld á sama tímabili í fyrra. Gengistap nam rúmum 497 mkr. samanborið við 56 mkr. gengishagnað árið áður. Engin hlutabréf voru seld en hagnaður af sölu hlutabréfa árið áður var 2 mkr. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 7 mkr. en jákvæð árið áður um 17 mkr. Tap af rekstri tímabilsins var 471,7 mkr. en 121,6 mkr. hagnaður var á sama tímabili árið áður.

Veltufé frá rekstri var 214 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2008, samanborið við 145 mkr. fyrir sama tímabil árið 2007. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní voru 5.438 mkr. og eiginfjárhlutfall 20%. Veltufjárhlutfall var 1,6 á fyrri hluta ársins 2008, en 2,6 árið áður.

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2008 var í aprílmánuði greiddur 15,86% arður af B-deild stofnsjóðs alls 28 mkr. og reiknaðir 10,0% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 24 mkr.

Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti í samræmi við heimildir í reglum félaga á Tilboðsmarkaði Kauphallar Íslands. Ráðgert er að birta afkomu ársins 2008 þann 20. febrúar 2009. 

Staða og horfur
Hátt vaxtastig og mikil veiking krónunnar hafði mjög neikvæð áhrif á afkomu SS á fyrri hluta ársins. Velta félagsins jókst umtalsvert eða um 28% sem er jákvætt í erfiðu árferði á sama tíma og kostnaðarliðir aðrir en vörunotkun hækkuðu um rúm 6%. Þróun fjármagnsliða á seinni hluta ársins mun ráða miklu um afkomu félagsins á árinu.

Áburður, kjarnfóður og aðrir helstu kostnaðarliðir við afurðaframleiðslu hafa hækkað mjög mikið að undanförnu, í raun meira en áður hefur þekkst bæði vegna gengislækkunar krónunnar og erlendra kostnaðarhækkana. Bændur geta ekki tekið á sig þessar miklu hækkanir á framleiðslukostnaði án þess að til komi hækkun á afurðaverði. Þetta mun því óhjákvæmilega leiða til hækkunar á kjötafurðum á komandi mánuðum.

Á árinu 2009 mun útflutningsskylda falla niður á dilkakjöti. Af þessum sökum ríkir talsverð óvissa um afkomu kjötgreina undir lok næsta árs. Hækkun á aðföngum bænda til framleiðslu afurða og niðurfelling útflutningsskyldu eykur þörf fyrir hagræðingu hjá bændum og afurðafyrirtækjum. Einnig þarf íslenskur landbúnaður að búa sig undir aukin innflutning samfara lækkun innflutningstolla á landbúnaðarvörum með áframhaldandi hagræðingu. Óhemjuhátt vaxtastig hér á landi ásamt gengislækkun krónunnar hefur veikt íslenskan landbúnað og annan atvinnurekstur og því brýnt að snúa þeirri þróun við.

Kjötiðnaður félagsins stendur vel með fjölbreytt vöruval og öfluga vöruþróun.

Matvöruhluti innflutningsdeildar hefur aukið hlutdeild sína á markaði enda mörg vörumerki deildarinnar vel þekkt á heimsvísu. Sala á tilbúnum áburði til bænda í samstarfi við Yara í Noregi hefur aukist umtalsvert milli ára. Innflutningur á kjarnfóðri er hafinn í samstarfi við DLG í Danmörku en fóðurverð hér á landi hefur verið mun hærra en í nágrannalöndum okkur. Með innkomu SS á fóðurmarkað aukast valkostir bænda auk þess sem mikilvægt er að bændur hér á landi eigi aðgang að úrvalsfóðri á hagstæðu verði til að þeir séu betur í stakk búnir til að lækka framleiðslukostnað.

Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000

Reykjavík, 29. ágúst 2008

Sláturfélag Suðurlands svf.