• Tekjur á fyrri árshelmingi 3.684,4 mkr. og aukast um 13,4% milli ára.
• 45,8 mkr. tap á fyrri árshelmingi ársins, en 471,7 mkr. tap á sama tíma í fyrra.
• EBITDA afkoma var 275 mkr. en 288 mkr. árið áður.
• Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur 188 mkr. þar af nam gengistap 76 mkr.
 
 
 
Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. sem Sláturfélagið á að öllu leyti.
Tap samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2009 var 45,8 mkr. Hátt vaxtastig og gengistap erlendra lána skýrir neikvæða afkomu. Á sama tímabili árið áður var 471,7 mkr. tap. Eigið fé Sláturfélagsins er tæpar 957 mkr. í lok júní.
 
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 3.684 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2009, en 3.248 mkr. á sama tíma árið áður og hækka því um rúm 13%. Aðrar tekjur voru 23 mkr en 22 mkr. árið áður.
 
Vöru- og umbúðanotkun var 2.176 mkr. en 1.760 mkr. árið áður. Launakostnaður lækkaði um tæpt 1%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um rúm 8% og afskriftir hækkuðu um rúm 25%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 121 mkr., en 165 mkr. árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 275 mkr. en var 288 mkr. á sama tíma í fyrra.
 
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 188 mkr., en 632 mkr. á sama tímabili í fyrra. Gengistap nam tæpum 76 mkr. samanborið við 497 mkr. gengistap árið áður. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um tæpa 21 mkr. en neikvæð árið áður um 7 mkr. Tap af rekstri tímabilsins var 45,8 mkr. en 471,7 mkr. tap var á sama tímabili árið áður.
 
Veltufé frá rekstri var 206 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2009, samanborið við 214 mkr. fyrir sama tímabil árið 2008. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní voru 6.176 mkr. og eiginfjárhlutfall 15%. Veltufjárhlutfall var 1,7 á fyrri hluta ársins 2009, en 1,6 árið áður.
 
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2009 var hvorki greiddur arður af B-deild stofnsjóðs né reiknaðir vextir á A-deild stofnsjóðs.
 
Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti í samræmi við heimildir í reglum félaga á Tilboðsmarkaði Kauphallar Íslands. Ráðgert er að birta afkomu ársins 2009 þann 26. febrúar 2010.
 
Staða og horfur
Rekstrarumhverfi fyrirtækja er afar erfitt í dag, mikil verðbólga, hátt vaxtastig og neikvæð gengisþróun samfara auknum samdrætti í einkaneyslu í kjölfar verulegrar lækkunar á ráðstöfunartekjum heimila. Velta félagsins jókst þó um rúm 13% sem er jákvætt í erfiðu árferði. Hátt vaxtastig og veiking krónunnar hafði neikvæð áhrif á afkomu SS á fyrri hluta ársins. Þróun fjármagnsliða á seinni hluta ársins mun ráða miklu um afkomu félagsins á árinu.
 
Kjötsala á landsvísu hefur dregist saman á undanförnum mánuðum jafnframt því sem útflutningsskylda á dilkakjöti er fallin niður. Veik staða krónunnar hefur bætt skilyrði fyrir útflutningi á lambakjöti enda mikilvægt að flytja út umtalsvert magn þar sem innlend framleiðsla er mun meiri en innanlandsneysla.
 
Kjötiðnaður félagsins stendur vel með fjölbreytt vöruval og öfluga vöruþróun. Erfitt efnahagsumhverfi hefur kallað á nýjar vörur sem falla betur að breyttu neyslumunstri. Kjötiðnaður félagsins er vel í stakk búinn til að takast á við þær aðstæður sem framundan eru.
 
Matvöruhluti innflutningsdeildar er öflugur enda vörumerki deildarinnar vel þekkt. Sala á tilbúnum áburði til bænda í samstarfi við Yara í Noregi gengur vel enda vörugæðin mikil. Innflutningur á kjarnfóðri er að aukast umtalsvert milli ára en SS er í samstarfi við DLG í Danmörku.
 
 
Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000
 
Reykjavík, 28. ágúst 2009
 
Sláturfélag Suðurlands svf.