Fréttatilkynning á pdf. formi með 5 ára yfirliti

Árshlutareikningur jan-jún 2018 á pdf. formi

• Tekjur á fyrri árshelmingi 5.881 m.kr. og lækka um 6% milli ára.
• 81 m.kr. hagnaður á fyrri árshelmingi ársins en 129 m.kr. hagnaður árið áður.
• EBITDA afkoma var 376 m.kr. en 408 m.kr. árið áður.
• Eigið fé 5.234 m.kr. í lok júní og eiginfjárhlutfall 59%.

Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélögum þess, Reykjagarði hf. og Hollt og gott ehf.

Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2018 var 81 m.kr. Á sama tímabili árið áður var 129 m.kr. hagnaður. Eigið fé Sláturfélagsins er 5.234 m.kr. í lok júní.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 5.881 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2018, en 6.235 m.kr. á sama tíma árið áður og lækka því um tæp 6%. Aðrar tekjur voru 25 m.kr. en 7 m.kr. árið áður.

Vöru- og umbúðanotkun var 2.981 m.kr. en 3.424 m.kr. árið áður. Launakostnaður hækkaði um rúm 9%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um tæpt 1% og afskriftir um tæp 6%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 166 m.kr., en 210 m.kr. árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 376 m.kr. en var 408 m.kr. á sama tíma í fyrra.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 64 m.kr., en voru 52 m.kr., á sama tímabili í fyrra. Reiknaður tekjuskattur nam 21 m.kr., en 29 m.kr. árið áður. Hagnaður af rekstri tímabilsins var 81 m.kr. en 129 m.kr. á sama tímabili árið áður. Minni hagnaður skýrist fyrst og fremst af lakari afkomu dótturfélaga og innflutningshluta félagsins.

Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 375 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2018, samanborið við 405 m.kr. fyrir sama tímabil árið 2017. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní voru 8.874 m.kr. og eiginfjárhlutfall 59% en 58% árið áður. Veltufjárhlutfall var 2,2 á fyrri hluta ársins 2018, en 2,3 árið áður.

Fjárfest var í varanlegum rekstarfjármunum á fyrri árshelmingi 2018 fyrir 420 m.kr. en 519 m.kr. á sama tímabili árið áður. Fjárfest var í fasteignum fyrir 83 m.kr. og vélbúnaði og bifreiðum fyrir 337 m.kr.

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2018 var í aprílmánuði greiddur 11,73% arður af B-deild stofnsjóðs alls 21 m.kr. og reiknaðir 4% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 14 m.kr.

Stjórn og forstjóri staðfestu árshlutareikning samstæðu Sláturfélagsins fyrir tímabilið 1. janúar – 30. júní 2018
með undirritun á stjórnarfundi í dag. Árshlutareikningur samstæðunnar er með könnunaráritun endurskoðenda.

Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ OMX. Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti. Ráðgert er að birta afkomu ársins 2018 þann 21. febrúar 2019.

Staða og horfur
Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með 59% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 2,2. Langtímatímaskuldir í lok júní 2018 voru 1.765 m.kr. Næsta árs afborganir eru um 77 m.kr. en lán samstæðunnar eru til langs tíma.

Afkoma Sláturfélagsins versnaði milli ára einkum vegna hækkunar á launakostnaði. Innflutningur á kjöti eykst stöðugt. Gert er ráð fyrir að nýr EB tollasamningur muni hafa verulega neikvæð áhrif á innlendan kjötmarkað á næstu árum og því m.a. brýnt að aðlaga kindakjötsframleiðsluna betur að innanlandsmarkaði.

Staða lykilvörumerkja félagsins í kjötiðnaði er sterk og ímynd félagsins góð á markaði sem rennir stoðum undir frekari uppbyggingu á markaðsstöðu á komandi árum. Samt sem áður er reiknað með erfiðum aðstæðum á kjötmarkaði á næstu árum.

Erfið staða sauðfjárræktar hafði neikvæð áhrif á afkomu búvöruhluta innflutningsdeildar á fyrri árshelmingi. Búvöruhluti innflutningsdeildar hefur byggst upp á undanförnum árum og er að þjónusta bændur með allar helstu rekstrarvörur.

Fjárhagsdagatal
Júlí – desember 2018 uppgjör 21. febrúar 2019
Aðalfundur 2019 22. mars 2019

Frekari upplýsingar veita:

Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is

Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri í síma 575 6000 – hjalti@ss.is