Fréttatilkynning á pdf. formi með 5 ára yfirliti
Árshlutareikningur jan-jún 2022 á pdf. formi
Afkoma á fyrri árshelmingi 2022
• Tekjur á fyrri árshelmingi 8.242 m.kr. og hækka um 26% milli ára.
• 437 m.kr. hagnaður á fyrri árshelmingi ársins en 129 m.kr. hagnaður árið áður.
• EBITDA afkoma var 958 m.kr. en 539 m.kr. árið áður.
• Eigið fé 5.753 m.kr. í lok júní og eiginfjárhlutfall 51%.
Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélögum þess, Reykjagarði hf. og Hollt og gott ehf.
Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2022 var 437 m.kr. Á sama tímabili árið áður var 129 m.kr. hagnaður. Eigið fé Sláturfélagsins er 5.753 m.kr. í lok júní.
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 8.242 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2022, en 6.563 m.kr. á sama tíma árið áður og hækka því um tæp 26%. Aðrar tekjur voru 43 m.kr. en 49 m.kr. árið áður.
Vöru- og umbúðanotkun var 4.470 m.kr. en 3.479 m.kr. árið áður. Launakostnaður var 1.754 m.kr. og hækkaði um tæp 8%, annar rekstrarkostnaður var 1.103 m.kr. og hækkaði um tæp 15% og afskriftir voru 240 m.kr. svipað og á síðasta ári. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 718 m.kr., en 299 m.kr. árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 958 m.kr. en var 539 m.kr. á sama tíma í fyrra.
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 181 m.kr., en voru 143 m.kr., á sama tímabili í fyrra. Reiknaður tekjuskattur nam 103 m.kr., en 31 m.kr. árið áður. Hagnaður af rekstri tímabilsins var 437 m.kr. en 129 m.kr. á sama tímabili árið áður.
Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 951 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2022, samanborið við 523 m.kr. fyrir sama tímabil árið 2021. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní voru 11.331 m.kr. og eiginfjárhlutfall 51% en 48% árið áður. Veltufjárhlutfall var 2,4 á fyrri hluta ársins 2022, en 2,2 árið áður.
Fjárfest var í varanlegum rekstarfjármunum á fyrri árshelmingi 2022 fyrir 331 m.kr. en 125 m.kr. á sama tímabili árið áður. Fjárfest var í fasteignum fyrir 35 m.kr. og vélbúnaði og bifreiðum fyrir 296 m.kr.
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2022 var í aprílmánuði greiddur 14,84% arður af B-deild stofnsjóðs alls 27 m.kr. og reiknaðir 6% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 21 m.kr.
Stjórn og forstjóri staðfestu árshlutareikning samstæðu Sláturfélagsins fyrir tímabilið 1. janúar – 30. júní 2022
með undirritun á stjórnarfundi í dag. Árshlutareikningur samstæðunnar er með könnunaráritun endurskoðenda.
Árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu SS: www.ss.is
Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ. Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti. Ráðgert er að birta afkomu ársins 2022 þann 16. febrúar 2023.
Staða og horfur
Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með 51% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 2,4. Langtímaskuldir í lok júní 2022 voru 2.621 m.kr. Næsta árs afborganir eru um 91 m.kr. en lán samstæðunnar eru til mjög langs tíma.
Afkoma Sláturfélagsins batnar milli ára um 308 m.kr. en afkoma allra meginsviða félagsins batnar milli ára. Velta samstæðunnar jókst á milli ára um 26% eða 1.679 m.kr. Jákvæð áhrif á veltu má m.a. rekja til aukningar á ferðamönnum, bættrar stöðu á útflutningsmörkuðum, sterkari stöðu í sölu kjötvara og innflutningi matvæla og búrekstrarvara til bænda.
Talsverð óvissa er framundan sem getur haft neikvæð áhrif á rekstur samstæðunnar á seinni árshelmingi. Hækkanir á rekstrarvöru, bæði innlendri sem erlendri, hafa verið umtalsverðar á árinu og ekki sér enn fyrir endann á þeirri þróun. Gengisstyrking krónu hefur haft jákvæð áhrif en óvíst að svo verði áfram. Afurðaverð sauðfjár mun taka umtalsverðum hækkunum í haust og áhrif af kjarasamningum sem framundan eru geta orðið framleiðslufyrirtækjum þung.
Sala á lambakjöti hefur gengið vel á árinu og birgðastaða í upphafi sláturtíðar verður mjög lág. Innflutningur á kjöti hefur hins vegar neikvæð áhrif á afkomu afurðafélaga og dregur úr framleiðslu innanlands en til að mynda var engin aukning milli ára í kjötframleiðslu innanlands. Áfram verður unnið að því að aðlaga rekstur samstæðunnar að breyttu rekstrarumhverfi, m.a. með því að leggja áherslu á sérstöðu og gæði innlendrar framleiðslu.
Staða lykilvörumerkja félagsins í matvælaiðnaði er sterk og ímynd félagsins góð á markaði sem rennir stoðum undir frekari uppbyggingu á markaðsstöðu á komandi árum. Aukin vélvæðing og öflug vöruþróun hefur styrkt grundvöll félagsins sem leiðandi aðila á kjötmarkaði. Samt sem áður er reiknað með erfiðum aðstæðum á kjötmarkaði á næstu árum vegna hækkana á hrávöru til landbúnaðarframleiðslu og aukningu í innflutningi kjötvara.
Matvöruhluti innflutningsdeildar hefur styrkt stöðu sína á markaði með nýjum vöruflokkum sem ganga vel. Búvöruhluti innflutningsdeildar hefur byggst upp á undanförnum árum og er að þjónusta bændur með allar helstu rekstrarvörur. Áfram verða nýtt tækifæri til frekari vaxtar. Umtalsverð óvissa er um verðþróun á áburði og kjarnfóðri á næstu misserum sem getur haft neikvæð áhrif á framleiðslukostnað landbúnaðarvara.
Fjárhagsdagatal
Júlí – desember 2022 uppgjör 16. febrúar 2023
Aðalfundur 2023 17. mars 2023
Frekari upplýsingar veita:
Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is
Hjalti H. Hjaltason, fjármálastjóri í síma 575 6000 – hjalti@ss.is