Fréttatilkynningin í heild ásamt 5 ára yfirliti sem pdf (420 kb)

Afkoma ársins 2003
Tap Sláturfélags Suðurlands á árinu 2003 var 37,5 milljónir, en á sama tímabili árið áður var 19,5 milljón króna hagnaður. Afkoma fyrir fjármagnsliði versnar um 11 milljónir, en aukin fjármagnsgjöld og tap af rekstri hlutdeildarfélaga leiða til 57 milljón króna lakari afkomu milli ára. Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er áfram góð með eigið fé tæpar tólfhundruð milljónir og 42% eiginfjárhlutfall.

Rekstrartekjur Sláturfélags Suðurlands voru 3.496 milljónir á árinu 2003, en 3.709 milljónir á árinu 2002 og minnkuðu um tæp 6% aðallega vegna mikillar verðsamkeppni á kjötmarkaðnum og samdrætti í afurðarekstri félagsins.

Rekstrargjöld án afskrifta námu 3.286 milljónum á árinu 2003 samanborið við 3.489 milljónum árið áður og minnka um tæp 6%. Afskriftir rekstrarfjármuna voru 155 milljónir sem er óbreytt frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 55 milljónir, en 66 milljónir króna árið áður.

Fjármagngjöld umfram fjármunatekjur voru 32 milljónir, en á árinu á undan voru fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld 6 milljónir. Undir fjármagnsliðum er 30 milljón króna gjaldfærsla vegna niðurfærslu hlutabréfa í eigu félagsins en árið áður var hún 27 milljónir.

Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 57 milljónir en var árið áður neikvæð um 45 milljónir. Gripið hefur verið til aðgerða til að bæta rekstur þeirra. Skattar voru 3 milljónir. Tap af rekstri ársins var 37,5 milljónir en hagnaður var 19,0 milljónir árið áður.

Veltufé frá rekstri var 189 milljónir samanborið við 171 miljón árið áður.

Í árslok 2003 voru heildareignir Sláturfélags Suðurlands 2.845 milljónir og höfðu lækkað um 87 milljónir frá áramótum. Skammtímaskuldir voru 748 milljónir, langtímaskuldir 907 milljónir og eigið fé 1.190 milljónir. Eiginfjárhlutfall var 42% í lok ársins 2003 óbreytt frá árinu áður. Veltufjárhlutfall var 1,4 í árslok 2003, en 1,3 árið áður. Unnin ársverk á árinu 2003 voru 344 en 339 árið áður.

Ársreikningur Sláturfélagsins er gerður í meginatriðum eftir sömu reikningsskilaaðferðum og árið áður. Ársreikningurinn er gerður eftir kostnaðarverðsaðferð að teknu tilliti til áhrifa verðlagsbreytinga Ef reikningsskilin hefðu ekki verið verðleiðrétt hefði bókfært tap ársins orðið 6,8 milljónum hærra og eigið fé í árslok 64,5 milljónum lægra.

Stjórnin staðfesti endurskoðaðan ársreikning félagsins á stjórnarfundi í dag. Prentaður ársreikningur verður tilbúinn til dreifingar eigi síðar en 20. mars n.k., jafnframt því sem hægt verður að nálgast hann á heimasíðu félagsins.

Helstu atriði úr rekstri
Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir alls 100 mkr. á árinu, en fyrir 97 milljónir króna árið áður. Vegna fasteigna var varið 36 milljónum, 46 milljónum til kaupa á framleiðsluvélum og tækjum, aðallega fyrir kjötvinnslu á Hvolsvelli og 18 milljónir vegna bifreiða. Á árinu voru seldir fastafjármunir fyrir 35 milljónir.

Fjárfest var í félögum fyrir 51 milljón, en aukið var hlutafé í Gullfoss og Ferskum kjötvörum.

Á haustmánuðum 2003 var undirritað samkomulag á milli KB banka hf. og SS Eigna ehf. dótturfélags Sláturfélagsins, um kaup SS Eigna á 100% hlut í Reykjagarði hf. Ekki hefur verið gengið frá uppgjöri vegna nauðasamninga, skuldauppgjörs og skuldbreytinga vegna þessa ferils og því ekki hægt að gera samstæðureikningsskil sem taka til reksturs Reykjagarðs hf.

Til að bæta afkomu afurðardeildar var sláturhúsið að Laxá aflagt á árinu.

Mikil áhersla hefur verið á vöruþróun undanfarin ár og árið 2003 var engin undantekning. Stefna félagsins er að 10% af sölu hvers árs í kjötiðnaði komi frá nýjum framleiðsluvörum.

Sláturfélagið flytur inn vörur frá þekktum og leiðandi fyrirtækjum. Innflutningsdeild félagsins hefur vaxið á undanförnum árum og náð góðum árangri við markaðssetningu einstakra vörutegunda, má þar nefna m&m sælgæti, Barilla pasta, Uncle Ben´s hrísgrjón og sósur, og krydd frá McCormick. Einnig flytur Sláturfélagið inn áburð frá Norsk Hydro.


Aðalfundur
Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn föstudaginn 2. apríl n.k. Stjórn félagsins mun þar leggja til að hvorki verði greiddur arður af B-deild stofnsjóðs né reiknaðir vextir af A-deild stofnsjóðs.


Horfur
Afkoma félagsins á árinu 2003 var óviðunandi og einkenndist af mikilli verðsamkeppni og offramboði á kjöti á markaðnum sem hafði neikvæð áhrif á afkomu félagsins. Ekki er gert ráð fyrir að aukið jafnvægi náist á kjötmarkaðnum fyrr en á síðari hluta ársins 2004.

Aðhaldi verður áfram beitt í rekstri félagsins, en gripið hefur verið til þess að draga úr útgjöldum auk þess sem fjárfestingar hafa verið dregnar saman. Gert er ráð fyrir að afkoma ársins 2004 verði ívið betri en á árinu sem var að líða.



Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000


Reykjavík, 26. febrúar 2004
Sláturfélag Suðurlands svf.