Fréttatilkynningin á pdf. formi með 5 ára yfirliti
Ársreikningur 2005 á pdf. formi
• Tekjur ársins 4.866,5 mkr.
• Afkoma batnar milli ára um 251,9 mkr.
• Hagnaður af sölu eigna 200,8 mkr. en 52,7 mkr. í fyrra.
• 353,4 mkr. hagnaður á árinu, en 101,5 mkr. hagnaður árið áður.
Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. sem Sláturfélagið á 51% hlut í.
Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á árinu 2005 var 353,4 mkr. Árið áður var 101,5 mkr. hagnaður. Eigið fé Sláturfélagsins er tæpar 1.573 mkr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 44%.
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 4.867 mkr. árið 2005, en 4.435 mkr. árið áður og hækka því um tæp 10%. Aðrar tekjur voru 28 mkr en 10 mkr. árið áður.
Vörunotkun var 2.500 mkr. og hækkaði um 13% úr 2.210 mkr. Launakostnaður hækkaði um 6%, annar rekstrarkostnaður lækkaði um 1% og afskriftir hækkuðu um 2%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 195 mkr., en 99 mkr. árið áður.
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 49 mkr., en voru 24 mkr. árið áður. Gengishagnaður nam tæpri
1 mkr. samanborið við 45 mkr. gengishagnað árið áður. Seldur var eignarhluti í Ferskum kjötvörum hf. og Mjólkurfélagi Reykjavíkur hf., auk fasteignar að Laxá í Leirárssveit og er hagnaður vegna þessa tæpar 201 mkr. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 13 mkr. en árið áður neikvæð um 17 mkr. Að teknu tilliti til 10 mkr. hlutdeildar minnihluta í afkomu var hagnaður af rekstri tímabilsins 353,4 mkr. en 101,5 mkr. árið áður.
Veltufé frá rekstri var 355 mkr. árið 2005, samanborið við 145 mkr. árið 2004.
Heildareignir Sláturfélagsins 31. desember voru 3.578 mkr. og eiginfjárhlutfall 44%. Veltufjárhlutfall var 1,9 árið 2005, en 1,8 árið áður.
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í apríl s.l. var í maímánuði greiddur 13,91% arður af B-deild stofnsjóðs alls 25 mkr. og reiknaðir 6% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 12 mkr.
Stjórnin staðfesti endurskoðaðan ársreikning félagsins á stjórnarfundi í dag. Prentaður ársreikningur verður tilbúinn til dreifingar eigi síðar en 17. mars n.k., jafnframt því sem hægt verður að nálgast hann á heimasíðu félagsins.
Áhrif innleiðingar alþjóðlegra reikningsskilastaðla
Á stjórnarfundi Sláturfélags Suðurlands í dag 24. febrúar 2006 samþykkti stjórn félagsins ársreikning þess fyrir árið 2005. Ársreikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins. Ársreikningurinn er nú gerður samkvæmt nýjum alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) sem fylgja ber samkvæmt reglum Kauphallar Íslands. Áhrif upptöku alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna á eigið fé samstæðunnar eru þau að bókfært eigið fé í ársbyrjun 2005 lækkar um 39,6 mkr. Í ársreikningnum er gerð grein fyrir þeim breytingum.
Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti í samræmi við heimildir í reglum félaga á Tilboðsmarkaði Kauphallar Íslands.
Aðalfundur
Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn föstudaginn 31. mars n.k. Stjórn félagsins mun þar leggja til að greiddur verði 14,5% arður af B-deild stofnsjóðs, alls 26 mkr. og reiknaðir 14,5% vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs, alls 30 mkr. Réttur til arðs miðast við lok aðalfundardags. Greiðsludagur arðs er 28. apríl n.k.
Staða og horfur
Sláturfélagið rekur nú eina hagkvæma rekstrareiningu á Selfossi eftir að hafa lokað öðrum sláturhúsum.
Á Hvolsvelli er vel tækjum búin kjötvinnsla þar sem framleiddar eru vörur sem margar hverjar eru með afar sterka stöðu á neytendamarkaði auk þess sem tækifæri hafa verið nýtt inn á mötuneytismarkað.
Innflutningsdeildir félagsins hafa styrkt stöðu sína á markaði og sala aukist, sérstaklega á tilbúnum áburði til bænda.
Aðstæður á kjötmarkaði eru nú í betra jafnvægi en undanfarin ár sem á að leiða til viðunandi afkomu félagsins.
Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000
Reykjavík, 24. febrúar 2006
Sláturfélag Suðurlands svf.