Fréttatilkynningin á pdf. formi með 5 ára yfirliti
Ársreikningur 2006 á pdf. formi
• Tekjur ársins 5.043,1 mkr.
• 23,4 mkr. hagnaður á árinu, en 343,4 mkr. hagnaður árið áður.
• Afkoma versnar milli ára vegna minni söluhagnaðar eigna og hækkun fjármagnsgjalda.
• Hagnaður af sölu eigna 2,5 mkr. en 193,4 mkr. 2005.
• Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur 158,7 mkr. en 48,5 mkr. árið áður.
Ársreikningurinn samanstendur af ársreikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. sem Sláturfélagið á 51% hlut í.
Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á árinu 2006 var 23,4 mkr. Árið áður var 343,4 mkr. hagnaður. Eigið fé Sláturfélagsins er tæpar 1.564 mkr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 42%.
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 5.043 mkr. árið 2006, en 4.867 mkr. árið áður og hækka því um tæp 4%. Aðrar tekjur voru 41 mkr en 28 mkr. árið áður.
Vöru- og umbúðanotkun var 2.506 mkr. en 2.500 mkr. árið áður. Launakostnaður hækkaði um rúm 10%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um 12% og afskriftir hækkuðu um tæp 4%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 154 mkr., en 195 mkr. árið áður.
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 159 mkr., en voru 49 mkr. árið áður. Gengistap nam tæpum
90 mkr. samanborið við 1 mkr. gengishagnað árið áður. Hagnaður af sölu hlutabréfa var 5 mkr. en 185 mkr. árið áður. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 23 mkr. en árið áður um 13 mkr. Hagnaður af rekstri ársins var 23,4 mkr. en 343,4 mkr. árið áður.
Veltufé frá rekstri var 365 mkr. árið 2006, samanborið við 355 mkr. árið 2005.
Heildareignir Sláturfélagsins 31. desember voru 3.736 mkr. og eiginfjárhlutfall 42%. Veltufjárhlutfall var 1,5 árið 2006, en 1,9 árið áður.
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2006 var í aprílmánuði greiddur 14,5% arður af B-deild stofnsjóðs alls 26 mkr. og reiknaðir 14,5% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 30 mkr.
Stjórnin staðfesti endurskoðaðan ársreikning félagsins á stjórnarfundi í dag. Prentaður ársreikningur verður tilbúinn til dreifingar eigi síðar en 16. mars n.k., jafnframt því sem hægt verður að nálgast hann á heimasíðu félagsins.
Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti í samræmi við heimildir í reglum félaga á Tilboðsmarkaði Kauphallar Íslands.
Aðalfundur
Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn föstudaginn 30. mars n.k. Stjórn félagsins mun þar leggja til að greiddur verði 7,0% arður af B-deild stofnsjóðs, alls 13 mkr. og reiknaðir 7,0% vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs, alls 16 mkr. Réttur til arðs miðast við lok aðalfundardags. Greiðsludagur arðs er 27. apríl n.k.
Staða og horfur
Íslenskur landbúnaður stendur nú á nokkrum tímamótum þar sem stefnir í aukin innflutning á landbúnaðarvörum samfara lækkun tolla. Áhrif þess á afkomu afurðafyrirtækja er ekki enn að fullu ljós en reyna mun á bændur og matvælafyrirtæki að ná fram enn frekari hagræðingu í rekstri. Sláturfélagið hefur á undanförnum árum fækkað verulega sláturhúsum og rekur nú eitt sláturhús á Selfossi.
Vel tækjum búinn kjötvinnsla félagsins á Hvolsvelli hefur á undanförnum árum styrkt stöðu sína á neytendamarkaði auk þess sem söluaukning inn á mötuneytismarkað og í tilbúnum réttum hefur skapað vinnslunni sérstöðu til frekari sóknar.
Innflutningsdeildir félagsins hafa bætt stöðu sína á markaði og sala aukist, bæði í matvöru og á tilbúnum áburði til bænda auk þess sem innflutningur á dýrafóðri er að hefjast í samstarfi við DLG í Danmörku.
Sláturfélagið hefur nýverið fengið fyrirheit um lóð í Hádegismóum hjá Reykjavíkurborg fyrir framtíðaraðstöðu sína á höfuðborgarsvæðinu.
Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000
Reykjavík, 23. febrúar 2007
Sláturfélag Suðurlands svf.