Fréttatilkynningin á pdf. formi með 5 ára yfriliti
Ársreikningur 2008 á pdf. formi
• Tekjur ársins 6.605,2 mkr. en 5.472,4 mkr. árið 2007.
• 1.555,0 mkr. tap á árinu, en 132,7 mkr. hagnaður árið áður.
• EBITDA afkoma var 499,4 mkr. og hækkar um 34,2 mkr. frá fyrra ári.
• Fjármagnsliðir neikvæðir um 1.840,6 mkr. en um 123,5 mkr. árið áður.
Ársreikningurinn samanstendur af ársreikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélagi þess, Reykjagarði hf. sem Sláturfélagið á að öllu leyti.
Tap samstæðu Sláturfélags Suðurlands á árinu 2008 var 1.555,0 mkr. Árið áður var 132,7 mkr. hagnaður. Neikvæð breyting í afkomu milli ára stafar fyrst og fremst af gengistapi erlendra lána samstæðunnar og háu vaxtastigi. Eigið fé Sláturfélagsins er 1.005,9 mkr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 16%.
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 6.605 mkr. árið 2008, en 5.472 mkr. árið áður og hækka því um 20,7%. Aðrar tekjur voru 78 mkr en 34 mkr. árið áður. Hækkun rekstrartekna umfram verðlagsbreytingar skýrist af magnaukningu í kjötsölu og tilbúnum áburði.
Vöru- og umbúðanotkun var 3.448 mkr. en 2.540 mkr. árið áður. Launakostnaður hækkaði um tæp 8%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um 12% og afskriftir hækkuðu um 56%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 125 mkr., en 226 mkr. árið áður sem stafar af 135 mkr. hækkun afskrifta og niðurfærslu á viðskiptavild.
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 1.841 mkr., en voru 124 mkr. árið áður. Gengistap nam 1.567 mkr. samanborið við 9 mkr. árið áður. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 0,1 mkr. en árið áður um 25 mkr. Reiknaður er tekjuskattur til tekna að fjárhæð 160 mkr. en var 2 mkr. árið áður. Tap af rekstri ársins var 1.555,0 mkr. en 132,7 mkr. hagnaður árið áður.
Veltufé frá rekstri var 344 mkr. árið 2008, samanborið við 338 mkr. árið 2007.
Heildareignir Sláturfélagsins 31. desember 2008 voru 6.248 mkr. og eiginfjárhlutfall 16% en 36% árið áður. Veltufjárhlutfall var 1,7 árið 2008, en 1,8 árið áður.
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2008 var í aprílmánuði greiddur 15,86% arður af B-deild stofnsjóðs alls 28 mkr. og reiknaðir 10,0% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 24 mkr.
Stjórnin staðfesti endurskoðaðan ársreikning félagsins á stjórnarfundi í dag.
Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti í samræmi við heimildir í reglum félaga á Tilboðsmarkaði Kauphallarinnar.
Aðalfundur
Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands verður haldinn föstudaginn 27. mars n.k. Stjórn félagsins mun þar leggja til að hvorki verði greiddur arður af B-deild né reiknaðir vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs.
Staða og horfur
Eitt erfiðasta rekstrarár í rúmri 100 ára sögu félagsins er að baki. Traustar grunnstoðir rekstrarins og sterk eiginfjárstaða SS veldur því að félagið stendur af sér þær efnahagslegu þrengingar sem nú ganga yfir. Rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja hefur verið afar óhagstætt, mikil verðbólga, hátt vaxtastig og neikvæð gengisþróun krónunnar og framundan er mikill samdráttur í einkaneyslu samfara auknu atvinnuleysi. Við styrkingu gengis, lækkun verðbólgu og lækkun vaxta mun SS bæta verulega rekstrarafkomu á árinu 2009.
SS hefur nú þegar brugðist við breyttum aðstæðum með því að bjóða vörur sem falla betur að breyttu neyslumunstri landsmanna. Kjötiðnaður félagsins er vel í stakk búinn til að takast á við þær aðstæður sem framundan eru.
Matvöruhluti innflutningsdeildar hefur aukið hlutdeild sína á markaði enda mörg vörumerki deildarinnar vel þekkt á heimsvísu. Sala á tilbúnum áburði til bænda í samstarfi við Yara í Noregi hefur aukist umtalsvert enda vörugæðin þekkt meðal bænda. Innflutningur á kjarnfóðri er hafin í samstarfi við DLG í Danmörku sem styrkir enn frekar innflutningshluta félagsins.
Áburður og kjarnfóður hefur hækkað mjög mikið á undanförnum árum, sérstaklega vegna neikvæðrar gengisþróunar. Staða bænda hefur því versnað mikið og brýnt að þessari þróun verði snúið til baka þannig að rekstrargrundvöllur landbúnaðar sé tryggður.
Útflutningsskylda á dilkakjöti er fallin niður. Af þessum sökum ríkir talsverð óvissa um afkomu kjötgreina þegar kemur fram á árið 2010.
Nánari upplýsingar veitir Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000
Reykjavík, 20. febrúar 2009
Sláturfélag Suðurlands svf.