Auglýsing aðalfundar SS

Aðalfundur Sláturfélags Suðurlands svf. verður haldinn föstudaginn 23. mars 2012 á Goðalandi  Fljótshlíð og hefst kl. 15:00.

           Dagskrá:

          1. Setning aðalfundar, kosning starfsmanna fundarins og könnun á mætingu fulltrúa.  
          2. Skýrsla stjórnar félagsins. 
          3. Starfsemi félagsins á liðnu ári. 
          4. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár skýrður. 
          5. Skýrsla skoðunarmanna. 
          6. Tillaga stjórnar um vexti af stofnsjóði og greiðslu arðs. 
          7. Umræður um skýrslu stjórnar, skýrslu um starfsemi félagsins, ársreikning og tillögu stjórnar um vexti og arð af stofnsjóði. 
          8. Afgreiðsla ársreiknings og tillögu stjórnar um vexti og arð af stofnsjóði. 
          9. Kosin stjórn félagsins. 
        10. Kosning endurskoðenda og skoðunarmanna. 
        11. Ákvörðun um þóknun stjórnar, skoðunarmanna og greiðslur til fulltrúa. 
        12. Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál, löglega upp borin. 
               a. Tillaga stjórnar vegna kaupa á hlutum í B-deild stofnsjóðs.


Tillögur frá félagsaðilum sem bera á fram á aðalfundi þurfa að vera komnar skriflega í hendur stjórnarinnar eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund.


Tillögur:

Liður 6 í dagskrá: Tillaga stjórnar um vexti af stofnsjóði og greiðslu arðs.

Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf. leggur til við aðalfund að greiddur verði 15,224%  arður af B-deild stofnsjóðs þar af er verðbótaþáttur 5,224% skv. 1. mgr. 14. gr. samþykkta félagsins, alls kr. 30.448.000,- eða 0,15 kr. á hvern útgefin hlut. Jafnframt að reiknaðir verði 15,224% vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs, alls kr. 38.313.239,-  Arðleysisdagur er 26. mars og arðréttindadagur er 28. mars.  Greiðsludagur arðs er 30. apríl n.k.


Liður 12 a. í dagskrá: Tillaga stjórnar vegna kaupa á hlutum í B-deild stofnsjóðs.

Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf. leggur til við aðalfund að stefna að lækkun hluta í B-deild stofnsjóðs félagsins með skipulegum kaupum á hlutum í B-deild stofnsjóðs og niðurfærslu þeirra hluta í kjölfarið, sem hugsanlega taki til allra hluta í B-deild stofnsjóðs. Stjórn félagsins er veitt umboð til kaupa á hlutum í B-deild stofnsjóðs á gengi 1,05 miðað við nafnverð þeirra, og fara umfram þau 10% vikmörk sem samþykktir og lög heimila, enda tilgangur kaupanna að færa hlutina strax niður á eftir. Tryggt skal að allir eigendur hluta í B-deild stofnsjóðs sitji við sama borð í þessum efnum, þannig að öllum þeim bjóðist að selja félaginu B-deildar stofnsjóðshluti sína á sama verði og í sama mæli. Ekki skal varið hærri fjárhæð til kaupanna en eðlilegt má teljast af þessu tilefni með hliðsjón af efnahag félagsins.  Samþykkt þessi er bundin því að aukinn meirihluti félagsmanna á aðalfundi samþykki tillöguna og að meirihluti eigenda B-deildar stofnsjóðshluta leggist ekki gegn áformunum á sérstökum félagsfundi þeirra sem haldinn skal strax að loknum aðalfundinum ef tillagan verður samþykkt þar.  Lagt er fyrir stjórn að boða án tafar til aukafélagsfundar Sláturfélags Suðurlands svf. ef áform þessi ganga eftir, þar sem á dagskrá verði formleg tillaga um lækkun hluta í B-deild stofnsjóðs og tilheyrandi tillaga um breytingu á samþykktum félagsins. Tillögunni skulu fylgja upplýsingar um uppkaup félagsins á eigin hlutum í B-deild stofnsjóðs, í hvaða mæli þau eru og við hvaða verði. 

Reykjavík, 5. mars 2012.

Stjórn Sláturfélags Suðurlands svf.