SS er eitt elsta starfandi fyrirtæki landsins og verður 105 ára hinn 28. Janúar 2012. Það er sérstakt að félagið var stofnað sem samvinnufélag framleiðenda og hefur alla tíð verið rekið sem slíkt og er að því leyti ólíkt mörgum öðrum samvinnufélögum sem voru blönduð félög.
Í 25 ára sögu Sláturfélags Suðurlands sem gefin var út árið 1932 segir svo um stofnun félagsins :
Sláturfélagið var stofnað upp úr neyð en fyrir stofnun þess var lítið skipulag á slátrun. Bændur á Suðurlandi ráku fé sitt á fæti til höfuðborgarinnar til að selja það kjötkaupmönnum sem gátu sett bændum afarkosti. Það sem ekki seldist þann daginn var rekið út fyrir bæinn á beit og svo aftur til bæjarins að morgni. Dæmi voru um að bændum tækist alls ekki að selja kindur sínar og yrðu að reka þær heim aftur síðla hausts. Slátrun fór mest fram undir beru lofti af ólærðum mönnum.
Með tilkomu Sláturfélagsins breyttust aðstæður mjög hratt. Félagið byggði öflugt og fullkomið sláturhús strax á fyrsta ári og réð fagmenn til slátrunar og verkunar. Söltun var aðal geymsluaðferðin og mikið var flutt út af söltuðu lambakjöti. Íslenskt saltkjöt hafði mjög slæma gæðaímynd erlendis og eitt fyrsta verk Sláturfélagsins var að kynna nýja og bætta verkun.
Frá upphafi stóð SS fyrir gæði í vinnubrögðum og vörum og hefur gert það öll þau 105 ár sem það hefur starfað.
Í 25 ára sögu SS er merkileg umfjöllun um bankakreppu ársins 1908. Sumt hljómar kunnuglega :
Félagið hefur stundað margs konar rekstur á þessum 105 árum. Verið stórtækt í rekstri smásöluverslana, rekið niðursuðuverksmiðju, sútunarverksmiðju og saumastofu. Rekið fjölda sláturhúsa og frystihúsa.
Í dag er reksturinn hnitmiðaður. Félagið starfar á heildsölustigi og framleiðir og verslar með matvörur og vörur tengdar matvörum.
Félagið er, ásamt dótturfélaginu Reykjagarði, stærsti vinnuveitandi á Suðurlandi og samtals með yfir 400 ársverk. Rekstur SS er á þremur stöðum. Höfuðstöðvar eru á Fosshálsi, sláturstöð er á Selfossi og matvælaiðnaður er á Hvolsvelli. Ársvelta samstæðunnar er tæpir 9 milljarðar króna.
Á afmælisdeginum verður heimsíða félagsins endurnýjuð en hún hefur verið hönnuð upp á nýtt til að vera þjónustu- og markaðstæki fyrir framleiðendur og neytendur.
Félagið er á spennandi tímamótum. Fjárhagsstaða þess er mjög traust. Markaðsstaðan er mjög góð og framundan eru spennandi verkefni í aukinni uppbyggingu innanlands og erlendis.
SS er því betur í stakk búið en nokkru sinni til að sinna tilgangi sínum og vera í leiðinni „fremst fyrir bragðið“ í huga viðskiptavina og eigenda.
Steinþór Skúlason forstjóri