Níels Hjaltason forstöðumaður gæðaeftirlits okkar fékk á dögunum tilnefningu til Fjöreggs MNÍ 2012 (Matvæla og næringarfræðingafélag Íslands). Fjöldi ábendinga um verðuga verðlaunahafa bárust félaginu og sérstök dómnefnd valdi fimm þeirra úr sem tilnefningar til verðlaunanna 2012. Var Níels einn af þeim fimm sem hlutu tilnefningu.
“Níels Hjaltason deildarstjóri gæðaeftirlits hjá Sláturfélagi Suðurlands er tilnefndur fyrir störf í matvælaiðnaði um árabil. Hann hefur verið frumkvöðull í að bæta meðferð og öryggi matvæla með því að innleiða verklagsferla til að tryggja betri meðferð, kælingu og hreinlæti við matvælavinnslu allt frá slátrun til sölu á kjötvörum. Hann hefur beitt sér fyrir bættri meðferð í flutningum, í verslunum og auknu eftirliti í sláturhúsum, ásamt aukinni þjálfun og menntun starfsmanna í matvælageiranum í yfir 30 ár. Níels hefur staðið fyrir ýmis konar námskeiðum sem öll snúa að betri meðferð matvæla og auknu öryggi þeirra í gegnum alla matvælakeðjuna.”
Það er okkur mikill heiður að hafa Níels í okkar röðum og er þessi tilnefning í senn viðurkenning á ódrepandi þrautseigju og dugnaði Níelsar í þágu gæðamála og jafnframt viðurkenning á gæðastefnu SS og því öfluga gæðastarfi sem hann leiðir innan félagsins með afgerandi hætti.
Við óskum Níelsi innilega til hamingju með þessa verðskulduðu viðurkenningu.