Sauðfjárslátrun á Selfossi er nú í fullum gangi og hefur leyfileg dagsslátrun fengist hækkuð í 2.200 stk. á dag og er því slátrað 11.000 stk. á viku. Mikil úrvinnsla afurða fer fram á staðnum. Innmatur er hirtur fyrir slátursölu sem gengur vel þetta árið, öll svið eru fullverkuð samdægurs, garnir hirtar til útflutnings og gærur saltaðar, sömuleiðis til útflutnings. Hluti kjötsins er frystur og hluti fer ferskur í útflutning og á innanlandsmarkað. Meðalfallþungi dilka það sem af er sláturtíð er 15,5 kg. Um það bil 130 manns vinna nú á Selfossi þar af u.þ.b. 50 útlendingar frá Norðurlöndum, Nýja-Sjálandi og víðar. Mikið mæðir á starfsfólki þegar slátrun er í hámarki, en þarna er vaskur og samstilltur hópur sem vinnur sín verk af gleði og ábyrgð. Einar Hjálmarsson sláturhússtjóri og Hermann Árnason stöðvarstjóri til hægri á myndinni.
Úttekt bandarísks eftirlitsmanns á sláturhúsi, skurðar- og pökkunaraðstöðu fór fram þann 9. september og stóðst húsið kröfur sem gerðar eru til húsa sem flytja út kjöt á Bandaríkjamarkað. Þann 5. október fór svo fram úttekt eftirlitsmanns kanadískra stjórnvalda með tilliti til útflutningsleyfis fyrir dilkakjöt þangað. Stóðst húsið allar kröfur og mun í framhaldinu verða á lista yfir þá aðila sem flytja mega kjöt til Kanada. Fyrir hafði húsið Evrópuleyfi. Þar með hefur sauðfjárhúsið á Selfossi leyfi til að flytja og verka kjöt á þá markaði sem mestar kröfur gera m.t.t. verkunar, búnaðar og vinnubragða. Úttektir eftirlitsmanna eru flóknar og krefjandi og taka til innra eftirlits, hreinlætiseftirlits, vinnubragða, öryggismála og ástands húss og búnaðar. Ljóst er af þessu að sláturhúsið á Selfossi er á heimsmælikvarða, enda ástand húss og búnaðar, vinnubrögð starfsfólks og umgengni til fyrirmyndar.
Nokkur þróun hefur orðið í þeim flutningatækjum sem flytja fé að húsinu, enda nauðsynlegt þar sem flutningsvegalengdir aukast. Sláturfélagið hefur keypt einn sérhæfðan vagn auk þess sem verktakar hafa endurnýjað bíla og keypt vagn. Nú fer mestur hluti flutninganna fram með tækjum sem sérstaklega eru gerð til gripaflutninga. Bætir það meðferð gripa, eykur flutningsgetu og flýtir vinnu við losun og lestun.
Hjalti Gunnarsson frá Fossnesi við nýja bílinn ásamt vagni sem flutt getur um 460 fjár.