Þessa dagana eru að hefjast umtalsverðar fjárfestingar SS á Suðurlandi en SS er stærsti atvinnurekandi Suðurlands og skapar þar hátt í 400 störf með dótturfélagi sínu Reykjagarði.
Stærsta afurðastöð landsins er stöð SS á Selfossi, sjá meðfylgjandi mynd. Þar verður hafin uppbygging og endurnýjun stöðvarinnar með því að byggja við vesturhlið hennar nýja byggingu sem verður um 500 fermetrar að stærð. Byggingin mun meðal annars gera mögulegt að gera verðmæti úr afurðum sem þarf að henda í dag en stefna SS er að gera allar afurðir að verðmætum. Jafnframt verður bætt aðstaða til heimtöku fyrir bændur. Byggingin er hönnuð þannig að breyta megi henni í frystigeymslu síðar.
Í Þorlákshöfn er SS að hefja byggingu á 1500 fermetra skemmu sem er ætluð til að auka hagkvæmni og tryggja gæði við áburðarinnflutning en SS er fulltrúi norska fyrirtækisins Yara, sem er stærsta áburðarfyrirtæki heims.
Reykjagarður fjárfestir einnig umtalsvert á árinu í endurnýjun og viðhaldi fasteigna.
Í heild er áætlað er að fjárfestingar við þessar framkvæmdir SS og Reykjagarðs verði um 300 mkr. árið 2013.
Hluti af efnahagsvanda Íslendingar er að fjárfestingar eru í lágmarki þrátt fyrir að bankar og lífeyrissjóðir séu með mikið af lausafé sem ber litla ávöxtun. Það er mjög líklegt að það myndi skila miklu ávinningi fyrir þjóðfélagið ef fyrirtækjum sem fjárfestu umfram tiltekið mark næstu 3-4 árin stæði til boða flýtifyrning á þeim fjárfestingum. Það væri hvati fyrir fyrirtæki með góðan rekstur að auka fjárfestingar sem allir myndu njóta.