Starfsmenn SS og Myllunnar settu glæsilegt heimsmet laugardaginn 20. nóvember, þegar þeir framleiddu 11,90 mtr. langa pylsu með öllu í Kringlunni. Gamla metið var 10,50 metrar og var sett í Pretóríu í Suður-Afríku 18. október í fyrra. Pylsan í Kringlunni er 1,40 meter lengri eða 11,90 metrar. Ekki aðeins er pylsan lengsta pylsa allra tíma, heldur var hún jafnframt sett ofan í lengsta pylsubrauð sem bakað hefur verið.

Tilefnið er að Heimsmetabók Guinness, Guinness Book of World Records, fagnar nú hálfrar aldar afmæli sínu en afmælisútgáfa bókarinnar kemur nú út á íslensku hjá Vöku-Helgafelli.

Metið þurfti að staðfesta samkvæmt reglum Guinness Book of World Records og var því pylsan nákvæmlega mæld um leið og hún var komin í brauðið ásamt öllu meðlæti. Í brauðið fóru 12 metra lengjur af tómatsósu, sinnepi, remúlaði, hráum lauk og steiktum. Vottar heimsmetstilraunarinnar voru þau Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og Guðrún Kristmundsdóttir, eigandi Bæjarins bestu, og tók landbúnaðarráðherra fyrsta bitann af pylsunni eftir að hún var mæld og metið staðfest.

Síðan var pylsan skorin niður þannig að allir sem komu nógu snemma fengu bita og vottorð um að hafa borðað bita af heimsins stærstu pylsu.

Byrjað var að flytja pylsuna frá Hvolsvelli klukkan átta um morguninn í 42 feta gámi og stórum flutningabíl, fánum skreyttum. Komið var við hjá Myllunni og pylsubrauðið sótt en að því búnu haldið í Kringluna þar sem pylsunni var síðan lyft í brauðið.

Undirbúningur hefur staðið undanfarna 2-3 mánuði og þar hefur þurft að beita ýmsum ráðum, því það er ekkert einfalt að sjóða og reykja svo langa pylsu. Tæknimenn þróuðu til að mynda sérstakan 12 mtr. langan ofn þar sem pylsan var reykt og soðin og sérstakar brautir, því ekki er hægt að rúlla pylsunni upp eins og slöngu og setja hana í venjulegan reyk- og suðuskáp. Passa þurfti upp á jafnt og rétt hita- og rakastig til að pylsan fengi rétta áferð og myndi ekki springa. Einnig þurfti að æfa öll handbrögð, þ.e. að koma pylsunni af brautinni í brauðið o.s.frv. Þá þurfti að þróa aðferðir við að flytja ferlíkið í bæinn og hita það upp í Kringlunni. Allt þetta leystu kjötiðnaðar- og tæknimenn okkar af stakri prýði og bakarar Myllunnar stóðu á sama hátt frábærlega að bökun og undirbúningi brauðsins. Undirbúningur viðburðarins í Kringlunni og kynning öll var á höndum Markaðsdeildar SS. Unun var að fylgjast með fagmannlegum vinnubrögðum og af hversu miklu öryggi og natni menn stóðu að málum við undirbúning og framkvæmd, hver á sínu sviði.

 
Heimsmeistarar SS og Myllunnar