Kapparnir á meðfylgjandi mynd eru hluti af vaskri sveit kjötiðnaðarmanna sem starfar hjá SS á Hvolsvelli. Þeir komu saman í morgun til að kanna gæði súrmatarins sem nú er í verkun og fer í sölu á komandi þorra.
Eins og flestir vita hefst verkun súrmatarins strax í lok ágúst og er hann þá lagður í mysu samkvæmt kúnstarinnar reglum. Framleiðsluferlið er langt og ekki hægt að bregðast við ef eitthvað fer úrskeiðis á lokastigi framleiðslunnar. Hvergi má því slaka á kröfum. Fylgjast þarf vel með sýrustigi, hitastig í kælum þarf að vera rétt og birta má ekki vera of mikil. Skipta þarf reglulega um mysu og hún þarf að vera fersk og hafa hinn rétta tón í bragði.
Verkun súrmatar má líkja við verkun og framleiðslu á eðalvínum og því er alltaf spennandi að vita hvernig til tekst frá ári til árs. Skemmst er frá því að segja að súrmaturinn fékk einmuna lof viðstaddra sem allir hafa sterkar skoðanir á gæðum og eiginleikum súrmatar. Meðal athugasemda sem heyrðust voru: “Ferskt og gott mysubragð”, “keimur af karamellu”, “angan af lyngi”, “flauelsmjúkir hrútspungar” og “gott eftirbragð sem minnir á göngur og réttir”.
Það er því útlit fyrir að súrmaturinn af 2012 árgerðinni sem SS setur á markað um komandi áramót muni falla landsmönnum vel í geð. Varla er við öðru að búast, enda fagmennska og metnaður alls ráðandi við framleiðsluna.
Til að gleðja bragðlauka þeirra áköfustu verður ein tegund af blönduðum súrmat í fötu sett á markað um miðjan desember.
Nánari upplýsingar gefur Steinþór Skúlason í s. 575 6000