Vegna yfirstandandi eldgoss í Grímsvötnum og öskufalls á Suðurlandi er vert að eftirfarandi komi fram:
Húsnæði okkar á Hvolsvelli er sérhannað til matvælaframleiðslu og sem slíkt tekið út og samþykkt af heilbrigðiseftirliti og öðrum til þess bærum yfirvöldum. Þetta felur í sér að húsnæðið er sérstaklega þétt og varið fyrir óhreinindum, þ.m.t. ryki og meindýrum. Húsnæðið á Selfossi er eldra, en stenst eigi að síður ítrustu kröfur innlendra og erlendra eftirlitsaðila. Innra gæðaeftirlit beggja stöðva tekur einnig á þessum þáttum og er það eftirlit hluti af daglegri starfsemi.
Hugur starfsfólks SS er hjá íbúum á hamfarasvæðinu, bændum og félagsmönnum Sláturfélagsins sem nú takast á við erfiðar aðstæður. Við sendum þeim hlýjar kveðjur með ósk um bjartari og betri tíma.
Inntök á loftræstikerfi verksmiðjunnar á Hvolsvelli eru búin síum sem taka smæstu agnir. Auk þess er loftræstikerfið keyrt þannig að yfirþrýstingur myndast í húsinu, sem gerir það að verkum að ryk og óhreinindi leita síður inn í húsið.
Neysluvatn á Hvolsvelli kemur úr uppsprettum djúpt úr jörðu og engin hætta á að það spillist vegna öskufalls. Það sama á við um Selfoss, en þar kemur vatnið úr lokuðum vatnslindum.
Við erum reynslunni ríkari eftir gosið í Eyfjallajökli á síðasta ári og ekkert sem bendir til að núverandi aðstæður valdi okkur vandræðum í framleiðslunni. Deildir eru keyrðar með eðlilegum hætti, engin rýming í gangi og starfsfólk kemst til og frá vinnu.
Vöruflutningar að og frá verksmiðjunni eru greiðir og skv. áætlun.