Okkar menn hömpuðu nítján verðlaunum í fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna í ár. Titillinn Kjötmeistari Íslands kom í hlut Jóns Þorsteinssonar á Hvolsvelli.
Jón Þorsteinsson sankaði að sér sjö gullverðlaunum, tveimur silfurverðlaunum og einu bronsi fyrir kjötvörur sínar sem m.a. voru nýrnapaté, Tindfjalla hangikjet og pressuð svið.
Jón var stigahæsti kjötiðnaðarmaðurinn í keppninni en sá sem fær flest stig samanlagt úr fimm stigahæstu vörum sínum hlýtur titilinn Kjötmeistari Íslands.
Jón fékk einnig búgreinaverðlaun frá Félagi Hrossabænda fyrir bestu vöru unna úr hrossa- eða folaldakjöti sem var Parmesan-Flatwurst.
Björgvin Bjarnason fékk tvö gull, fyrir sælkerapaté og sviðapaté og Benedikt Benediktsson fékk gull fyrir rjómalifrarkæfu með sveppum.
Steinar Þórarinsson fékk silfur fyrir kjúklingalifrarpylsu og brons fyrir hátíðarsultu og Hermann Rúnarsson fékk gull fyrir svínapaté og silfur fyrir grísasultu.
Þá fékk Oddur Árnason tvenn gullverðlaun, fyrir sælamb og súkkulaðikæfu en súkkulaðikæfan var valin athyglisverðasta nýjung keppninnar.
Við erum stolt af svo glæsilegri frammistöðu okkar fagmanna og óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.
Þessi árangur er okkur öllum hvatning til áframhaldandi góðra verka.