SS pylsan, saga

Íslendingar borða SS pylsur

SS vínarpylsan er einn vinsælasti skyndibiti landsmanna.  Með öflugu gæðaeftirliti, fyrsta flokks hráefni og áherslu á að viðhalda gömlum hefðum í pylsugerð er framleidd góð vara sem stenst kröfur neytenda um gæði og hollustu ár eftir ár. SS pylsuna má framreiða á óteljandi vegu.  Flestir kannast við “Eina með öllu” en segja má að hugmyndaflugið eitt sé takmarkandi þáttur varðandi matreiðslu á SS-pylsunni.

 

 

 

 

 

 

 

Saga SS pylsunnar

Sláturfélag Suðurlands var stofnað árið 1907 en árið 1908 erfði Sláturfélagið pylsugerðartæki frá D. Thomsen og Jóni Þórðarsyni og má því segja að fyrirtækið hafi framleitt pylsur allt frá upphafi. Þau tæki voru síðan endurnýjuð á árabilinu 1942-43 er keyptar voru nýjar hrærivélar, hakkavélar og ýmis tæki frá fyrirtækinu Globe í Chicago. Fyrirtækið „Elding trading company“ sá um innflutninginn. Uppskriftin að vínarpylsum er nautakjöt, kindakjöt og svínakjöt og þarf það síðastnefnda að vera með til að mýkja bragðið því kindakjöt og nautakjöt er frekar hart.

Það má segja að vínarpylsurnar slái fyrst í gegn á markaðnum á árunum fyrir stríð. Það gerist við það að Nielsen og mágur hans, Jón Sveinsson, setja upp pylsuvagn í kringum 1937-38. Þeir settu vagninn upp í Kolasundinu. Á upphafsárum pylsuvagnanna voru allar pylsur rauðar en eftir að farið var að selja þær á götu þótti óheppilegt ef dropi lak á skyrtu. Svo minnkaði eftirspurnin eftir rauðu pylsunum og var hætt að framleiða þær upp úr 1980. Upp úr 1950 komu nýjar umbúðir utan um SS pylsuna. Þá var pylsum pakkað í svokallað sellófan. Rétt eftir 1960 hóf Sláturfélagið garnahreinsun. Þessi vinnsla var nýmæli á þessum árum og voru fengnir tveir Danir til að leiðbeina með vinnsluna.

Árið 1958 átti Sláturfélagið aðeins einn skáp til að reykja pylsur. Síðan sá Jón S. Friðjónsson um kaup á tveimur nýjum reykingaskápum en þegar Jón gerðist framleiðslustjóri Sláturfélags Suðurlands, beitti hann sér mjög fyrir bættum vélakosti. Þessir skápar gátu tekið þrjú statív, (grindur) af pylsum. Gamli skápurinn gat aðeins tekið eitt statív. Framleiðslugetan sexfaldaðist því við þessi kaup. Fyrst voru pylsurnar þurrkaðar í skápunum og síðan reyktar. Eftir reykingu voru pylsurnar soðnar. Eftir suðu voru skáparnir opnaðir og pylsurnar settar í vatnskælingu. Það þurfti að gerast hratt svo of mikill raki færi ekki út og þær spryngju. Nokkru seinna var keyptur skápur sem var alveg eins og tveir hinir fyrri, nema þessi var sérstaklega hannaður til kælingar.  Þá var minni hætta á að pylsurnar rýrnuðu og misstu bragðgæði. Framleiðslan jókst vitanlega þegar þessi nýi tækjabúnaðar kom til.

Um 1960 keypti Sláturfélagið vélasamstæðu sem pakkaði pylsum í lofttæmdar plastumbúðir. Þessi vinnsluaðferð var nokkuð vandmeðfarin og prófuðu menn sig áfram áður en þeir fóru úti í markvissa framleiðslu. Plastpökkun kjötafurða var bylting því hún jók geymsluþolið og dró úr framleiðslukostnaði. Það tók nokkurn tíma að koma þessari vinnslu í gagnið því starfsmenn voru óvanir þeirri sjálfvirkni sem fylgdi pökkuninni.

Einnig breyttist skipulagið á framleiðsluferlinu við komu dansks pylsugerðarmanns, Edvalds Christiansen. Hann kom til landsins í kringum 1970 og dvaldi á annað ár. Sérstaklega hafði hann áhrif á hvernig unnið var úr svínakjötinu, en eins og kunnugt er eru Danir sérfróðir á því sviði. Þá má nefna að upp úr 1970 festi fyrirtækið kaup á stærstu hrærivél á landinu, 500 lítra vél, en sú sem var notuð áður tók aðeins 200 lítra. Allt pylsu og kjötfars er unnið í slíkum vélum.

Um svipað leyti fór markaðshlutdeild SS vínarpylsa mjög vaxandi. Á vissum tíma var pylsuframleiðslan svo mikilvæg í framleiðslunni að stjórnendurnir voru uggandi um hag fyrirtækisins ef eitthvað kæmi upp á í framleiðslunni. Svo mjög þótti fyrirtækið vera með eggin í sömu körfunni.

Sláturfélagið hefur til langs tíma verið með 80% markaðshlutdeild. Lykillinn að þeirri markaðshlutdeild var vitanlega góður tækjabúnaður. Áður en stærri skáparnir voru keyptir og pylsuframleiðslan var farin að aukast þurfti oft að vinna fram eftir á kvöldin því það þurfti að setja í reykingu það sem var búið að framleiða yfir daginn. Gæði er einkunnarorð SS pylsunnar og allt frá upphafi hafa stjórnendur fyrirtækisins haft það að leiðarljósi að uppfylla kröfur viðskiptavina sinna. Þessi mikli metnaður þeirra, ásamt frábæru starfsfólki, hefur átt sinn þátt í því að SS pylsan er enn í dag þjóðarréttur Íslendinga enda „Borða Íslendingar SS pylsur“.

Innihald og næringargildi SS pylsunnar

Næringarlega er SS pylsan góður kostur miðað við sambærilegan flokk matvæla. Hún inniheldur aðeins 17% fitu sem er minna en algengt er með pylsur og miklu minna en t.d. í hamborgurum sem eru yfirleitt með 20-25% fitu. Pylsan inniheldur 13% prótein sem er meira en skyr svo dæmi sé tekið. Í SS pylsunni er rúmlega 99% innihaldsins náttúruleg efni og meira að segja þá er kollagen görnin sem er utan um pylsurnar náttúrlegt efni sem unnið er úr nautum.

Kjöthlutfallið í pylsunni er um 65%. Þar við bætist íslenskt vatn sem er 25% af þyngdinni og undanrennuduft 3,5% sem er þurrkuð undanrenna og inniheldur fyrst og fremst kolvetni og prótein. Þar við bætist kartöflumjöl 2,7% sem er náttúruleg vara unnin úr þurrkuðum kartöflum. Salt er 2,1% sem gerir um 1 gramm í hverri pylsu. Sojaprótein er 1% og er náttúrulegt efni sem unnið er úr sojabaunum. Krydd og kjötkraftur er 0,8%.

Það eru þrjú aukefni í pylsunni. Þau eru fosfat 0,54% sem er bindiefni, C vítamín 0,07% til að minnka hættu á gerjun og nítrít 0,03% til að gefa rauðan lit. Samtals eru aukefni því 0,64% af þyngd.
Enginn sykur er í pylsunni.